Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:36:29 (5969)


[17:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og vænta mátti kom ekkert fram í ræðu hv. þm. sem er bitastætt í þessu máli. Sannleikurinn er sá að ef það eiga að vera rök í málinu að einhver leyfir sér að fara með mál fyrir dóm þá eigi að fresta málinu í þinginu, þá gætum við farið heim löngu áður en mörg mál eru afgreidd úr þinginu. Það eru auðvitað engin rök.
    Hv. þm. vildi síðan lesa leiðara úr DV. Það getur vel verið að þingmönnum Kvennalistans þyki vænt um leiðara og leiðarahöfunda DV en ég vil segja að þeir virtust ekki sjálfir hafa lesið sitt eigið blað því daginn áður í þessu sama blaði var öllu því svarað sem kom fram í þessum leiðara. Ég veit að hv. þm. sem er ágætlega læs ætti að kíkja á DV 5. apríl og lesa um sölu á hlutabréfum Þormóðs ramma í því blaði.
    Ég verð að segja alveg eins og er að því miður er hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir ekki á staðnum, en ekki fórst hv. þm. Kristínu Einarsdóttur vel úr hendi að verja hennar málstað hér og nú.