Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 19:01:56 (5974)


[19:01]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig gott að fá þessar upplýsingar, en þær breyta náttúrlega engu um það að það er engin niðurstaða og enginn árangur af þessu samráði hvað þau deiluatriði varðar sem tengjast afgreiðslu þessa frv. Því miður. Þess vegna er það auðvitað svo að sú krafa er eðlilega uppi af hálfu samtaka opinberra starfsmanna að á meðan svo er ekki séu þessi mál látin bíða. Það væri auðvitað langhyggilegast og eðlilegast, eins og ég fór hér yfir í mínu stutta máli, eins og hæstv. fjmrh. vakti athygli á, að menn notuðu þá frekar tímann í að vinna á þessum samráðsvettvangi að því að leysa þessi mál heldur en knýja hér fram afgreiðslu á einstökum einkavæðingarfrumvörpum í bullandi ágreiningi. Ég held að það sé óhyggilegt, hæstv. fjmrh. Miklu skynsamlegra og vænlegra til árangurs væri að nota tímann á þessum samstarfsvettvangi eða með öðrum hætti til þess að reyna að leysa þessi mál í samkomulagi.