Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 19:04:06 (5976)



[19:04]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þá vakna auðvitað spurningar um hvað þetta samráð getur þá orðið. Til hvers er það ef fyrir fram, af hálfu ríkisins, er ljóst, eins og hér var sagt af hæstv. fjmrh., að það séu stjórnvöld sem marki stefnuna og það standi ekki til að breyta neinu um þann kúrs? Og það hafi aldrei staðið til að stöða afgreiðslu einkavæðingarfrumvarpa hér á þingi eða meðferð þeirra. Það er alveg greinilegt af þeim upplýsingum sem efh.- og viðskn. fékk með heimsókn opinberra starfsmanna að þeir hafa gert sér vonir um annað. Þannig að þarna hefur þá eitthvað skolast til. Það var alveg greinilegt að þar voru menn að binda vonir við það að nú settu menn deilumálin til hliðar á ís eða hvað sem menn kalla það og ynnu á þessum samráðsvettvangi að því að reyna að ná einhverju samkomulagi og einhverjum friði um þessi mál. Þannig að þarna hefur þá eitthvað skolast til og menn hafa ekki talað nógu skýrt eða með öðrum hætti tekist óhönduglega til orðaskiptin.
    Einstök dómsmál. Það er kannski eðlilegra og skiljanlegra að það sé lítið við því að gera þegar þannig er komið. Þegar einstakir aðilar eru að leita réttar síns þá er auðvitað ekki hægt að grípa inn í þá þróun.