Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 10:55:56 (5986)


[10:55]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir máli sem liggur á að afgreiða eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. og það hefur staðið til lengi að afgreiða þetta mál. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að fólk sem býr við það að vera á leigumarkaði með lægstu laun, það fólk sér ekki fyrir sér. Því er eiginlega fyrsta spurningin sú: Af hverju er þetta mál ekki fyrr á ferðinni? Af hverju er fyrst núna, þegar 12--14 dagar eru

eftir af þinghaldinu, mælt fyrir þessu máli? Í athugasemdum við lagafrv. stendur, með leyfi forseta:     ,,Frv. þetta hefur verið unnið á vegum félmrn. og byggir m.a. á niðurstöðum nefndar sem félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir skipaði í ágúst 1991 til að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda og skilaði niðurstöðu í febrúar 1993.`` Nefnd sem fjallaði um þetta mál skilaði niðurstöðu fyrir rúmu ári síðan. Málið er því svolítið seint fram komið þó ekki sé meira sagt og spurningin er: Er stíflan svo mikil í ríkisstjórninni varðandi þetta mál? Og svo á gildistakan að vera 1. jan. 1995 þannig að það er langt í það að þessi lög öðlast gildi miðað við hvað þetta frv. er áríðandi.
    Eins og kemur fram í frv. getur einstaklingur fengið allt að 21.000 kr. í húsaleigubætur og ekki er ætlast til að húsnæðið kosti meira en 45.000 kr. Mér finnst þessar upphæðir ekki óeðlilegar og hef ekkert við þær að athuga en mig langaði að spyrja um nokkur atriði í sambandi við frv. Það kemur strax fram í 2. gr. hvernig kostnaðarskipting á að vera, ríkið greiðir 60% og sveitarfélagið 40%, þau skipta þessu þannig á milli sín. Sveitarfélagið sér um greiðsluna og síðan kemur endurgreiðsla frá ríki. En ef sveitarfélag hefur ekki tekið ákvörðun fyrr en 1. okt. hvers árs um það að greiða þessar húsaleigubætur, eftir því sem mér skilst, þá fá einstaklingar í sveitarfélaginu ekki húsaleigubætur. Þá er ríkið sem sagt stikkfrí. Segjum svo að sveitarfélag sé fjárhagslega mjög illa statt, sem því miður er til í dæminu, og treysti sér ekki til að greiða þessar húsaleigubætur, þá fá einstaklingar í sveitarfélaginu ekki þessar bætur. Ef þetta er rétt skilið hjá mér þá tel ég þetta vera atriði sem verður að skoða betur.
    Það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um, það er varðandi 7. gr. Það eru atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta. Ég hef ekkert að athuga við þrjú fyrstu efnisatriðin, ég tel þau ekki óeðlileg, en í sambandi við fjórða efnisatriðið í 7. gr., að ef leigusamningur er til skemmri tíma en sex mánaða, þá fær einstaklingur ekki húsaleigubætur. Nú er það þannig að sums staðar þar sem þröngt er á húsaleigumarkaðinum, mikil eftirspurn eftir húsnæði, þá fá leigjendur ekki bindandi samning svo lengi þannig að þeir einstaklingar sem lenda í því og eru mjög tekjulágir fá sem sagt ekki húsaleigubætur. Þetta er annað atriði sem mér finnst þurfa að skoða.
    En eins og ég sagði í upphafi þá tel ég þetta ekki flókið mál út af fyrir sig og ég tel að hv. félmn. eigi að geta ráðið við þetta á þessum 12 dögum sem eftir lifa af þingi. Ég tel þetta miklu einfaldara mál en t.d. þau mál sem við vorum að ræða í gær sem félmn. þarf líka að glíma við, varðandi reynslusveitarfélög. Þannig að ég tel ekki neina annmarka á því að við getum afgreitt þetta. Það er kannski spurning hvort það þurfi að flækja málin eins og í þessu að það þurfi að þinglýsa leigusamningum og vildi ég að hæstv. félmrh. útskýrði aðeins nánar hvers vegna það er nauðsynlegt. Ég tel ágætisákvæði í restinni á þessu að það eigi að endurskoða lögin, ef þetta frv. verður að lögum, eftir tvö ár í ljósi reynslunnar. Það tel ég gott og ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni enda fæ ég það verkefni í félmn. að kafa betur ofan í þetta mál.