Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:27:44 (5991)


[11:27]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er ekki alveg ljóst í hverju athugasemdin felst. Ég bið forláts á því ef ég skil þetta ekki alveg rétt. En eins og ég skil málið þá sýnist mér einfaldlega vera um grundvallar pólitískan ágreining að ræða. Alþfl. hefur vissulega haft þá stefnu að það sé betra að nota markaðskerfið, láta það ráða útgjöldunum, og taka síðan aðstoðina í gegnum skattkerfið. Við munum það bæði að námslán voru vaxtalaus. Menn hurfu frá þeirri stefnu og fóru að taka markaðsvexti af námslánum, fyrst lægri vexti og síðan hærri vexti, og ákveða að taka endurgreiðsluna í gegnum skattkerfið. Mér sýnist einfaldlega að menn séu einhvers staðar að bila á þessari leið. Út af fyrir sig er ágætt að ræða það en hafi menn haft þá skoðun eins og ég benti á hvað varðar lán og vexti af lánum til húsnæðiskaupa og húsbygginga og vexti af námslánum þá er um verulegt fráhvarf frá þeirri stefnu að ræða í þessu frv. Það er alveg ljóst. Ég benti á að menn geta ekki haft tvær ólíkar stefnur uppi í þessu máli.
    Ég verð að viðurkenna varðandi þá stefnu sem er lögð til, að nota niðurgreiðsluna á þessu stigi sem þarna er, að ég óttast að það verði meiri misnotkun á peningunum með þessari leið heldur en með því að niðurgreiða þetta í gegnum vaxtakerfið, svo dæmi sé tekið.