Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:21:44 (5998)


[12:21]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er oft vitnað úr þessum ræðustól til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga og það er erfitt að sigla milli skers og báru þegar verið er að tala um réttindi fólks og svo sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og nokkuð var tekist á um þetta í sambandi við viðræður okkar við Samband ísl. sveitarfélaga. Þetta varð niðurstaðan. En ég hygg að í þessu frv. felist þó mjög ákveðinn hvati til sveitarfélaganna að taka upp þetta kerfi. Þau hafa mörg hver verið með húsaleigustyrki, a.m.k. allra stærstu sveitarfélögin til þessa, og þetta á ekki að vera nein viðbót hjá þeim. En ríkið kemur inn í með 60% á móti af greiðslunni þannig að það hlýtur að vera ákveðinn hvati fyrir sveitarfélögin að taka upp þetta húsaleigubótakerfi til þess að auka þjónustu við íbúa sína, sérstaklega þegar ríkið kemur inn með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.