Alþjóðasamþykktin um öryggi fiskiskipa

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:36:14 (6001)


[12:36]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel það að sjálfsögðu alveg nauðsynlegt að Ísland sé eitt af þeim ríkjum sem fullgilda þessa samþykkt, Torremolinos-bókunina, og nægir í því sambandi að minna á að það hefur alltaf verið mjög stórt mál hjá okkur Íslendingum sem fiskveiðiþjóð að öryggi okkar fiskiskipa sé það besta sem gerist. Það má einnig minna á það að samkvæmt því sem hér segir í athugasemdum með þáltill. var íslenskur maður, Hjálmar R. Bárðarson, formaður í þeirri nefnd sem vann að frumdrögum að þessari samþykkt og það leggur okkur sem Íslendingum enn meiri skyldur á herðar að fullgilda þennan samning.
    Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan þegar hann mælti fyrir þessari tillögu þá höfum við Íslendingar tekið upp mjög margt sem tilheyrir þessari samþykkt í okkar siglingalög og þau lög sem gilda um öryggi fiskiskipa hjá okkur og þannig höfum við að sjálfsögðu verið að fullgilda hvað okkur varðar þau ákvæði sem hér eru inni. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af því sem hann hefur sagt um þetta og lokaorðum hans að vísa þessari samþykkt til hv. utanrmn., sem að sjálfsögðu er eðlilegt þar sem hér er um alþjóðasamþykkt að ræða, hvort ekki þurfi jafnframt að vísa þessu máli til samgn. þar sem samgn. hefur fjallað um öryggi fiskiskipa og hefur með að gera bæði frumvörp og lagabálka um það atriði.
    Ég hef ekkert sérstakt um það að segja hvernig þessi þáltill. er til komin eða orðuð. Ég hef ekki farið nákvæmlega yfir alla þætti í þessu riti enda veit ég að þetta er jafnframt tekið inn í okkar lagabálka. En það er mjög mikið lesefni sem berst á borð okkar þingmanna þessa dagana, það nægir í því sambandi að nefna það sem hér má sjá á borðum frá því í gær og telur örugglega nokkur þúsund blaðsíður og á að taka hér fyrir samkvæmt dagskrá í dag. Þingmenn hafa sjálfsagt orðið að leggja hart að sér til þess að lesa það allt saman í nótt.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig sérstaklega um þetta en vil spyrja hæstv. ráðherra aftur hvort ekki sé eðlilegt að bæði utanrmn. og samgn. fjalli um þetta.