Réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um herafla í Evrópu

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:46:35 (6006)


[12:46]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið tel ég rétt að vekja athygli hv. þm. á því sem stendur í athugasemdum við lagafrv. þetta. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Hinn 9. nóv. 1991 öðlaðist samningur frá 19. nóv. 1990 um hefðbundinn herafla í Evrópu gildi. Samningurinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd samkvæmt heimild í ályktun Alþingis 14. des. 1991.``
    Með öðrum orðum, það er búið að fullgilda umræddan samning með heimild Alþingis eftir að utanrmn. hefur um hann fjallað þannig að þarna er ekki um að ræða fullgildingu á alþjóðasamningi heldur ákveðin framkvæmdaratriði á samningi sem þegar hefur verið fullgiltur með samþykki Alþingis Íslendinga og eftir umfjöllun í utanrmn. Einmitt þess vegna var það niðurstaða lögfræðinga utanrrn. að málið ætti heima í allshn. Það er hins vegar ekkert sérstakt metnaðarmál mitt að svo skuli vera en ég vildi gjarnan skjóta því til úrskurðar virðulegs forseta hvert forsetadæmið teldi réttast að þetta frv. færi og ég er reiðubúinn að sjálfsögðu til þess að fallast á úrskurð forseta og draga þá tillögu mína til baka ef niðurstaða forseta verður önnur.