Réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um herafla í Evrópu

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:53:14 (6013)


[12:53]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er ástæðulaust að orðlengja mikið um þetta. Hér er e.t.v. um markatilfelli að ræða og ef málið færi til utanrmn. er afar einfalt að fá álit allshn. á málinu þannig að hér er kannski ekki um stóra mismunun að ræða. En ég vil minna á að herinn hefur heyrt undir utanrmn. og mun eftir því sem ég best veit halda áfram að gera það. Sendiherrar og utanríkisþjónustan heyrir líka undir þá nefnd. Ég tel því að það séu sterk rök fyrir því að þetta mál heyri þar áfram.
    Ég vil svo vegna þess að hér hefur verið óskað eftir úrskurði forseta minna á það í allri góðsemi, þó að ég treysti frú forseta prýðilega til að úrskurða í þessu máli, að þá er það þingið sem slíkt sem hefur hér endanlega úrskurðarvald. Forseti getur látið athuga málið, og það tel ég af hinu góða, og sagt sína skoðun á því hvert málið eigi að fara. En bara til að taka af öll tvímæli þá er það auðvitað atkvæðagreiðsla í þinginu sem ræður ef ágreiningur verður um til hvaða nefndar mál á að fara, ekki úrskurður forseta.