Málefni aldraðra

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 14:00:57 (6023)


[14:00]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil staðfesta það sem hefur komið fram að félmn. Alþingis fjallaði um þessa brtt. sem sneri að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, fór mjög ítarlega ofan í það eftir að heilbr.- og trn. hafði unnið málið hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir lögin og nefndin átti í raun og veru tvo kosti. Hún átti þann kost sem hún tók að vísa umsögn sinni og tillögum um breytingar á félagsþjónustulögunum yfir til heilbr.- og trn. þannig að breytingarnar kæmu frá henni eftir vinnu nefndarinnar eða að flytja sérstakar tillögur frá sér með tilvísun til laga sem hefðu verið afgreidd úr heilbr.- og trn. sem kölluðu á lagfæringar á félagsþjónustulögunum. Það var mat okkar að sú leið sem við fórum væri betri og eðlilegri og ég minnist þess ekki að það hafi verið andmæli við það af hálfu fulltrúanna í félmn. Við unnum þetta vel og ég held að það hafi verið góð leið sem við fórum og sú umræða sem hér á sér stað kemur mér mjög á óvart í þessu máli.