Málefni aldraðra

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 14:04:29 (6025)

[14:04]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég greiði ekki atkvæði um þessa brtt. m.a. með hliðsjón af úrskurði forseta. Hann er hið nýja í málinu. Hann er sá viðburður sem taka verður mið af við afgreiðslu þessa máls. Það er þess vegna rangt hjá hv. 8. þm. Reykv. að það sé í rauninni nóg í þessu sambandi að líta á efnismeðferð málsins í nefndinni. Það verður einnig að skoða og taka tillit til þeirrar umræðu sem fram fór hér í þinginu við 2. umr. um formshlið málsins, m.a. ábendingar sem fram koma frá hv. 2. þm. Vestf. og hæstv. forseti hefur tekið tillit til. Ég tel að það sýni hroka í afstöðu stjórnarliðsins að hlusta ekki á aðvaranir einstakra stjórnarandstöðuþingmanna við 2. umr. og einnig hroka að taka ekki tillit til þess að hér hefur verið fluttur af forsetastóli úrskurður sem er í rauninni mjög sjaldgæfur ef ekki nýlunda um langt árabil.