Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:17:00 (6038)


[15:17]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Mér finnst það líka mjög sérkennilegt að taka þetta upp varðandi tryggingafélögin. Ef hv. þm. les þskj. 913, sem er svar utanrrh. við fsp. Kristínar Einarsdóttur, Svavars Gestssonar og Finns Ingólfssonar um athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA, þá sér hv. þm. að þar er einmitt fjallað um það varðandi tryggingastarfsemina að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur sem skyldi við að setja lög á Alþingi eða af hálfu ríkisvaldsins að leggja fram frv. og við að fjalla um það sem varðar vátryggingastarfsemi. Þar er algerlega um sérstaka löggjöf að ræða og verður tekið á því sérstaklega í þeim lögum sem við eigum eftir að fjalla um og eru þegar komin á borð okkar og lúta að starfsemi tryggingafyrirtækja. Og þar munum við geta tekið á þessum efnisreglum og áttað okkur á því hvað í þessu felst. Mér finnst því enn veikjast rökin fyrir því að hér sé verið að brjóta eitthvað í bága við samkeppnislögin með þessu, enda kom ekkert slíkt fram í máli Georgs Ólafssonar, forstjóra Samkeppnisstofnunar, þegar hann kom á fund nefndarinar. Menn verða náttúrlega að lesa þetta skjal í samhengi við svo marga hluti. Hv. þm. á ekki sæti í utanrmn. og þess vegna get ég vel skilið að hann hafi ekki áttað sig á hinu stóra samhengi í öllu þessu máli til að fjalla um það eins og við sem höfum setið á fjölmörgum fundum og reynt að gera okkur grein fyrir því sem felst í öllum þessum mikla viðbótarpakka.