Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:18:42 (6039)


[15:18]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að þetta er mjög margþætt mál og kemur inn á mörg svið. M.a. segir í athugasemdum á bls. 7 við þál., með leyfi forseta, og þarf ekki annað en vitna hér í þennan texta:
    ,,Þess skal að lokum getið að frv. til laga um. vátryggingastarfsemi sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi og síðan aftur á 117. löggjafarþingi lítið breytt hlaut ekki afgreiðslu fyrir áramót eins og ráðgert hafði verið. Það frv. gerði ráð fyrir breytingum á landsrétti sem nauðsynlegar voru vegna gildistöku samningsins um EES 1. jan. sl. Hins vegar var ekki tekið tillit til þeirra breytinga sem felast í viðbótarpakkanum. Af þeim sökum var frv. endurskoðað með hliðsjón af því og verður lagt fram sem nýtt frv. með öllum þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til samræmis við framangreindar tilskipanir auk eldri reglna sem þegar hafa tekið gildi á EES-svæðinu.``
    Það er tvisvar sinnum búið að leggja fram frv. til breytinga á vátryggingastarfsemi. Þau frv. eru með þessu lýst ónýt og þarf nýtt samkvæmt þeim reglum sem hér eru að taka gildi til viðbótar og hvað þurfum við frekar vitnanna við? Vegna þess að bæði er verið að breyta þessum samkeppnisreglum og þau frumvörp sem við höfum verið að fjalla um á síðustu tveimur þingum eru orðin ómerk í dag og þarf ný.