Samningur um líffræðilega fjölbreytni

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 16:47:23 (6047)


[16:47]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sá samningur sem hér liggur fyrir er einn af meginafurðum eða niðurstöðum sem fengist hafa eftir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro í júní 1992. Það er ánægjuefni að þessi samningur skuli vera kominn fyrir Alþingi og leitað fullgildingar á honum. Ísland var í hópi fyrstu ríkja til að undirrita þennan samning. Það gerði fyrrv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, í Rio de Janeiro, 12. júní 1992. Það var ánægjulegt að vera viðstaddur þann atburð og ég sé ástæðu til að þakka þeim sem hafa unnið að því að koma þessu máli í þann búning sem samningurinn liggur fyrir í og leita staðfestingar á honum.
    Annar samningur sem gengið var frá að mestu í Rio de Janeiro var samningurinn um loftslagsbreytingar. Sá samningur hefur þegar öðlast gildi. Það má segja að þessir tveir alþjóðasamningar séu með markverðari niðurstöðum þessa fundar í Rio de Janeiro, sem mætti raunar bera oftar á góma heldur en raun ber vitni og alveg sérstaklega þær niðurstöður og þau orð sem þar féllu frá fjölda þjóðarleiðtoga og fulltrúum ríkisstjórna margra landa, að það sé tekið mark á þeim og tekið mið af þeim við ákvarðanir. Það

er undirstaða þess að eitthvað miði til úrbóta og eitthvað dragi úr þeim háska sem yfir mannkyni svífur vegna þeirra neikvæðu áhrifa á umhverfið sem umsvif okkar þegar hafa haft og eru farin að ógna tilvist lífs á jörðinni, ekki aðeins heilsu manna og möguleikum, heldur tilvist fjölda lífvera. En það þekkja menn og vita að á hverju ári skipta þær lífverutegundir þúsundum að talið er sem hverfa af sjónarsviði vegna tilverknaðar mannsins beint og óbeint.
    Ég á þess væntanlega kost að líta á þetta mál þótt með óbeinum hætti verði í umhvn. þingsins og vænti þess og mun stuðla að því að þessi samningur fái afgreiðslu áður en þinghaldi lýkur í vor.