Evrópska efnahagssvæðið

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 16:50:53 (6048)

[16:50]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, sbr. lög nr. 66/1993.
    Frv. felur í sér tvennt. Í fyrsta lagi felur 1. gr. frv. í sér tæknilega breytingu á bókun 1 við EES-samninginn. Bókunin er lögfest með 2. gr. laga nr. 2/1993 og prentuð sem fskj. II við þau lög.
    Í öðru lagi felur 2. gr. frv. í sér að nægilegt sé að birta breytingar og viðbætur við EES-samninginn í sérstöku blaði sem gefið verður út á íslensku á vegum útgáfumiðstöðvar EFTA þannig að ekki þurfi einnig að koma til birting í C-deild Stjórnartíðinda.
    Í 3. gr. er fjallað um gildistöku annars vegar ákvæðis 1. gr. og hins vegar ákvæðis 2. gr.
    Hinn 8. febr. 1994 tók sameiginlega EES-nefndin þá ákvörðun að breyta a-lið 4. tölul. bókunar 1. Samkvæmt núgildandi a-lið 4. tölul. bókunar 1 er gert ráð fyrir því að EFTA-ríkin og þar til bær yfirvöld veiti bæði eftirlitsstofnun EFTA og fastanefnd EFTA þar til greindar upplýsingar. Breytingin felst eingöngu í því að nægilegt sé að veita eftirlitsstofnun EFTA þessar upplýsingar, en henni er síðan falið að koma þessum upplýsingum til fastanefndar EFTA. Ákvæði 1. gr., sbr. 1.--2. mgr. 3. gr. frv., er í samræmi við ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar frá 8. febr. 1994.
    Með 2. gr. frv. er ætlunin að forðast tvíbirtingu breytinga og viðbóta við EES-samninginn og koma þannig í veg fyrir óþarfa kostnað og skriffinnsku sem af því mundi hljótast.
    Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanrmn. Ég óska þess jafnframt að hv. nefnd stuðli að því að þessi breyting geti fengið framgang nú á vorþingi því að hér er um að ræða einfaldanir og aðgerðir til að draga úr óþarfa skriffinnsku.