Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:02:23 (6051)


[17:02]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Sennilega er rétt fyrir Íslendinga að staðfesta samninginn um Svalbarða og gerast aðilar þar að. Ég er hins vegar ekki hlynntur þeirri málsupptekt sem hæstv. utanrrh. beitti að byrja á að ræða þetta við krata í Noregi með auðmjúkum hætti. Ég tel að við höfum ekkert með það að gera. Við eigum rétt á að staðfesta þennan samning ef við viljum og ég held að það sé skynsamlegt að gera það.
    Afstaða ríkisstjórnarinnar hefur markast af sinnuleysi eins og hefur komið fram í umræðunum. Það

er raunar óskiljanlegt hvað henni gengur illa að vakna og átta sig á stöðunni og hverjir eru hagsmunir Íslands. Sjómenn og útgerðarmenn fóru síðla á fyrra ári upp á eigin spýtur og þrátt fyrir andmæli ríkisstjórnarinnar að stunda úthafsveiðar í Smugunni og reyndar hafa þeir farið víðar um höf og úthafsveiðar eru orðnar staðreynd í okkar þjóðarbúskap og okkur veitir sannarlega ekki af að nota þann gilda þátt í afkomu þjóðarinnar. Þar af leiðandi finnst mér óskiljanleg sú afstaða sem stjórnvöld hafa fylgt fram að þessu að torvelda Íslendingum þessar úthafsveiðar svo sem þeir hafa gert. Vegna úreltra laga eða óskynsamlegra lagaákvæða er þeim útgerðum sem hyggjast stunda úthafsveiðar gert í mörgum tilfellum að flagga út skipum og þeim er neitað um að skrá á íslenska skipaskrá skip sem þeir kaupa og fá stundum á hagstæðu verði erlendis og ætla að gera út til úthafsveiða. Menn hafa verið að bera því við að það endaði með því að þau yrðu að fá kvóta í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þetta er fyrirsláttur og það er engin ástæða til að óttast það að þau fái kvóta.
    Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 860 frv. til laga um breytingu á lögum um eftirlit með skipum þar sem ég legg til að þetta 15 ára hámarksaldursákvæði verði fellt niður. Ég tel að úthafsveiðar Íslendinga séu orðin staðreynd. Það sé ákaflega óskynsamlegt og í alla staði óheppilegt að hafa skip undir hentifánum ef þau eru í alíslenskri eigu. Ég vil að sjálfsögðu að annað gildi um skip í alíslenskri eigu en skip sem eru með einhverjum hætti í félagseigu Íslendinga og útlendinga, eins og reyndar eru dæmi um. Að hafa skip undir hentifána fylgir verulegur aukakostnaður og það er óeðlilegt og óskynsamlegt og veiðireynsla skipa undir hentifánum á fjarlægum miðum nýtist að sjálfsögðu ekki Íslendingum í framtíðinni. Ég tel að vel geti komið til greina fyrir Íslendinga að prófa fiskveiðar við Svalbarða og ef fullgilding þessa samnings bætir stöðu okkar þar um þá tel ég að við eigum að athuga það gaumgæfilega að staðfesta hann.