Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:07:09 (6052)


[17:07]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég tel mjög ánægjulegt að þetta mál, till. til þál. um staðfestingu samnings um Svalbarða, liggi fyrir. Það er í sjálfu sér mjög einfalt eins og texti þess hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um Svalbarða sem gerður var í París 9. febr. 1920.``
    Hér er um það að ræða að við tilkynnum vörsluaðila þessa samnings að við gerumst aðilar að honum. Það fer vel á því í sjálfu sér að bera þetta mál undir Alþingi og gefa okkur alþingismönnum tækifæri til að fjalla um það. Við höfum gert það nú þegar á nokkrum fundum í tilefni af því sem fram hefur komið í umræðunum að Íslendingar hafa hafið fiskveiðar í Barentshafi og jafnvel verið að færa sig inn á svæði sem Norðmenn telja sig hafa yfirráð yfir vegna yfirráða sinna á Svalbarða.
    Ég tel að það sé nauðsynlegt að undirstrika þegar þetta mál er tekið hér fyrir, eins og hv. 4. þm. Austurl. gerði raunar, að Svalbarðasamningurinn snýst ekki um rétt til fiskveiða við Svalbarða nema ef vera skyldi innan 4 mílna landhelgi í kringum eyjaklasann. En í 1. gr. samningsins er skilgreint til hvaða svæði hann nær og í upphafi 2. gr. segir, með leyfi frú forseta:
    ,,Skip og þegnar allra hinna háu samningsaðila skulu njóta sama réttar til fiskveiða og dýraveiða á þeim landsvæðum sem tilgreind eru í 1. gr. og innan landhelgi þeirra.``
    Þetta eru ákvæði samningsins og ágreiningurinn um yfirráðin og réttinn til fiskveiða snýst um það að Norðmenn, ef ég skil málið rétt, halda því fram að landhelgin sem þarna er um að ræða sé 4 mílur eða minna en hins vegar hafi þeir yfirráðaréttinn á svæðinu frá 4 mílum og út í 200 mílur og sá réttur sé ekki viðurkenndur samkvæmt þessum samningi. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að vekja máls á þessum sjónarmiðum hér. Menn þurfa ekki að vera sammála þeim þótt athygli sé á þeim vakin og ég er það ekki endilega varðandi rétt íslenskra skipa til veiða á svæðinu frá 4 mílum út í 200 mílur. En ástæðan fyrir því að þessi samningur var gerður upphaflega kemur fram í 1. og 2. gr. og síðan öðrum greinum og samningurinn lýtur ekki að rétti aðildarríkjanna til fiskveiða á því svæði sem nú er um deilt.
    Það er mjög nauðsynlegt að hafa þetta í huga og þegar við ræðum þetta mál á Alþingi getum við ekki gefið röng merki um það að með því að tilkynna um aðild okkar að þessum samningi þá séum við að opna hindrunarlausan aðgang íslenskra fiskiskipa til að athafna sig á þessu svæði. Þar er um lagalega þrætu að ræða. Þar hafa Norðmenn haldið uppi eftirliti og gæslu og menn sem fara inn á það svæði eiga yfir höfði sér að lenda í útistöðum við norsk yfirvöld, hvað svo sem gerist eftir að til slíkra deilna er stofnað. Á það hefur verið bent að Norðmenn hafi ekki látið reyna þannig á yfirráð sín á þessu umdeilda svæði að það hafi verið unnt að bera málið undir t.d. Alþjóðadómstólinn í Haag og fá úr því skorið þar hvernig yfirráðum á þessu svæði sé háttað. Þeir sem fara inn á þetta svæði taka ákveðna áhættu.
    Mér finnst mjög nauðsynlegt að við látum þetta koma fram í umræðum um þetta mál á Alþingi þannig að við séum ekki að gefa einhverjar falskar vonir varðandi hvaða þýðingu samþykkt þessa máls hefur hér í þinginu. Samningurinn snýst um allt önnur atriði en menn hafa túlkað hann við breyttar aðstæður, við breytta þróun í hafréttarmálum, á þann veg að hann nái einnig til stærra svæðis en raunverulega er tilgreint í 1. og 2. gr. hans.
    Ég tel, eins og fram hefur komið, næsta undarlegt að Íslendingar skuli ekki fyrr hafa ákveðið að

tilkynna frönskum yfirvöldum um aðild sína að þessum samningi og kannski má líta svo á að það kunni að vera óheppilegt í sjálfu sér málsins vegna að það skuli vera gert ef það er túlkað af einhverjum sem einhvers konar óvildarbragð í garð Norðmanna. Ég lít alls ekki þannig á enda hef ég litið þannig á að af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi verið staðið þannig að kynningu málsins gagnvart Norðmönnum að um það þurfi ekki að vera neinn vafi að við erum ekki að gerast aðilar að þessum samningi í neinni óvild við Norðmenn. Við erum að nýta okkur rétt sem við höfum samkvæmt samningnum sjálfum með því að senda þessa tilkynningu.
    Við getum einnig á grundvelli hennar nýtt okkur ýmislegt vonandi á Svalbarðseyjaklasanum sjálfum, t.d. varðandi náttúruvernd, rannsóknir á heimskautasvæðum og annað slíkt sem kann að nýtast okkur vel við náttúruvernd hér á landi og rannsóknir á Íslandi og samanburð á náttúru hér og á slíkum heimskautasvæðum. Ég held því að það sé full ástæða til þess og við eigum að vera virkir þátttakendur og virkari en við höfum verið í rannsóknum á norðurhjarasvæðum og heimskautasvæðum. Við fáum tækifæri til þess á grundvelli þessa samnings að stunda þar rannsóknir eins og aðrir og getum látið að okkur kveða við það og það er m.a. eitt af því sem felst í aðild okkar að þessum samningi.
    Ég hef fjallað um spurninguna um Svalbarða áður á öðrum vettvangi, meira í ljósi öryggismálanna og þróunar þeirra. Eins og menn kannski rekur minni til þá hafa verið deilur á eyjaklasanum á milli Norðmanna og Rússa og oft mjög viðkvæmt ástand. Nú hafa aðstæður gjörbreyst að því leyti a.m.k. um stundarsakir varðandi stöðuna á Svalbarða og við erum ekki að blanda okkur neitt í það viðkvæma mál um öryggishagsmuni sem þarna voru með því að tilkynna um aðild að samningnum og það er ekki með nokkru móti unnt að líta á það þannig að við séum að blanda okkur í slík mál með nýjum hætti með því að gerast aðilar í þessum samningi.
    Ég tel hér um mjög tímabært mál að ræða og mun vinna að því á vettvangi utanrmn. að það nái fram að ganga nú í vor. En mér þótti ástæða til þess sérstaklega að minna á efni samningsins þannig að við séum ekki að gefa hér falskar vonir um það hvað í honum felst.