Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:25:41 (6055)


[17:25]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. fyrir þann stuðning sem hefur komið fram máli þeirra. Ég get stytt mjög mína ræðu því hv. formaður utanrmn. sagði í sinni ræðu mestallt af því sem ég hefði viljað ræða. Engu að síður eru nokkur atriði sem ég vildi minnast á.
    Í fyrsta lagi er það alveg rétt, og get ég verið sammála hv. 4. þm. Austurl. um það, að það er umhugsunarvert hvernig stendur á því að við höfum ekki tekið þessi mál fyrir um aðild að Svalbarðasamningnum fyrr en nú fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég átti þess líka kost í júnímánuði á sl. ári að heimsækja Svalbarða þannig að þar hefur verið mikil traffík Íslendinga. Við höfum a.m.k. verið þar tveir á svipuðum tíma, ég og hv. 4. þm. Austurl. Þar átti ég kost á að ræða við þá sem fara með stjórn mála í Longyearbyen og raunar líka að heimsækja Barentsburg þar sem Rússar stunda kolanámuvinnslu. Þar var mjög rækilega kynnt fyrir okkur framkvæmd Norðmanna á Svalbarðasamningnum eins og nánar er lýst í samningnum sjálfum. Þar kom m.a. upp sú spurning hvernig stæði á því að Íslendingar hefðu ekki gerst aðilar að þessum samningi og ég gat ekki svarað því einfladlega vegna þess að ég vissi það ekki. En mér finnst líklegt að ástæðan sé sú að mest alla þessa öld hafa Íslendingar verið strandveiðiþjóð sem hefur ekki verið að sækja fisk svo mjög á fjarlægum miðum og þess vegna hafi e.t.v. áhugasjóndeildarhringurinn verið miðaður við hafsvæðin í næsta nágrenni við okkur. Jafnvel þó það sé alveg rétt, ég tek undir það með mönnum, að staðfesting á Svalbarðasamningnum sé ekki fiskveiðimál þá kann það engu að síður að hafa ráðið sinnuleysi stjórnvalda að menn hafi ekki haft auga með þessu hafsvæði, m.a. vegna þess að menn hafi ekki stundað þar miklar veiðar núna um áratuga skeið.
    Ég vildi hins vegar víkja nokkrum orðum að því sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan. Í fyrsta lagi þá sagðist hann ekki skilja afstöðu núv. ríkisstjórnar sem hefði markast af sinnuleysi á málinu. Svalbarðasamningurinn er undirritaður árið 1920. Síðan hafa setið fjölmargar ríkisstjórnir og þar á meðal ríkisstjórn með aðild Framsfl. þar sem Framsfl. hefur t.d. farið með utanríkismál. Þær ríkisstjórnir sinntu þessu máli nákvæmlega ekki neitt. Það var fyrst þegar núv. ríkisstjórn kom til valda að farið var að sinna þessu máli. Þannig að ef hægt er að ásaka einhvern fyrir sinnuleysi í stjórnkerfinu þá eru það auðvitað þær ríkisstjórnir sem farið hafa með völd á umliðnum áratugum og ekki hafa sinnt málinu.
    Hv. þm. tók þannig til orða að það væri óviðurkvæmilegt að utanrrh. hafi byrjað að ræða málið við norska krata. Utanrrh. ræddi ekki málið við norska krata, utanrrh. ræddi málið við forsætisráðherra Noregs. Af hverju? Jú, eins og hv. formaður utanrmn. skýrði út, vegna þess að ríkisstjórnin vildi forðast það að Norðmenn fengju einhvern rangan skilning á því hvers vegna íslenska ríkisstjórnin var farin að sinna þessu máli sem ekki hafði verið sinnt áratugum saman. Það þótti hlýða að áður en tillaga til staðfestingar yrði lögð fram á Alþingi þá væri ekki norskum krötum heldur forsætisráðherra Noregs gerð grein fyrir því hver væri ástæða ríkisstjórnar Íslands fyrir því að hún teldi rétt að staðfesta þetta samkomulag.
    Hv. þm. sagði einnig, ég skrifaði það orðrétt eftir honum, að íslensk veiðiskip hafi stundað veiðar í Smugunni gegn andmælum ríkisstjórnarinnar. Þetta vita hv. þm. allir að er þvættingur. Hrein ósannindi vegna þess að niðurstaðan er þveröfug. Íslenska ríkisstjórnin lagði fram lögfræðiálit þess efnis að veiðar í Smugunni væru úthafsveiðar sem væru fyllilega heimilar. Að segja þess vegna eins og hv. þm. sagði í ræðu sinni að þessar veiðar hafi verið stundaðar gegn andmælum ríkisstjórnarinnar eru hrein og skær ósannindi og honum varla sæmandi.
    Hv. þm. sagði það líka og stendur virðist vera einn um það að tilgangurinn með því að gerast aðilar að þessum samningi væri að skapa veiðiheimildir fyrir íslensk skip á Svalbarðasvæðinu. Það er tekið skýrt fram í máli manna sem hér hafa talað að það er ekki tilgangurinn enda kemur það ekki fram að sá tilgangur sé í greinargerð frv. Við teljum hins vegar rétt, og undir það hafa tekið allir þingmenn nema einn sem hér hafa talað, að gera skýra grein fyrir því að aðild Íslands að þessum samningi jafngildir ekki viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögu sem Norðmenn hafa einhliða ákveðið í kringum Svalbarða. Sú útfærsla er grundvölluð á norskum lögum en ekki á þeim samningi sem færir Norðmönnum takmarkað lögsöguvald yfir eyjunum.