Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:37:43 (6059)


[17:37]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um það að okkur greinir ekkert á um þetta mál. Hann staðfesti það í sinni ræðu að það væri rangt að þessar veiðar hefðu verið stundaðar gegn andmælum ríkisstjórnarinnar. Hann sagðist vera sammála þeirri lýsingu sem ég gaf að upphaflega hafi ráðherrar ekki allir verið sammála um málið. En um leið og það var tekið inn á borð ríkisstjórnarinnar og komin formleg afstaða hennar til málsins hefur afstaða hennar verið sú sem fram kom í lögfræðiálitinu sem gert var að tilhlutan utanrrh. Það er því algerlega ósatt og undir það tók hann að þessar veiðar hafi verið stundaðar gegn andmælum íslensku ríkisstjórnarinnar.