Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:38:40 (6060)


[17:38]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Nú er það alkunna að hæstv. viðskrh. er ákaflega réttorður maður og fer ekki frjálslega með sannleikann. Þó held ég að hann hafi nú tekið helst til mikið upp í sig áðan þegar hann var að reyna að verja ríkisstjórnina og halda henni saman eins og hér hefur verið bent á. Það er út af fyrir sig ágæt æfing fyrir hann sem væntanlega á að taka við formennsku í flokki sínum innan skamms að æfa sig á góðu samstarfi. Það er ekki nema þjálfunaratriði og það er prýðilegt fyrir hann að nota þetta tækifæri í fámennum salnum til þess að vera boðberi friðar og sátta. Það vill nú svo til að ég hef ekki haft tíma á

þessari stuttu stund síðan þessar umræður hófust til að fletta upp á tilsvörum Þorsteins Pálssonar við blaðamenn og fréttamenn ljósvakafjölmiðlanna þegar fyrstu skipin fóru í Smuguna. Það var að sjálfsögðu ,,statement`` frá ríkisstjórninni og ég verð að segja það að með fullri virðingu fyrir öðrum ráðherrum þá tek ég ekkert minna mark á hæstv. sjútvrh. Þorsteini Pálssyni sem málsvara ríkisstjórnarinnar heldur en öðrum.
    Í orðum hæstv. sjútvrh. var sannarlega ekki að heyra neina uppörvun til íslenskra útgerðarmanna eða íslenskra sjómanna að hefja veiðar í Smugunni. Hitt er svo rétt, sem hér hefur komið fram, að ríkisstjórnin hefur áttað sig nokkuð og aðrir ráðherrar og kannski hæstv. sjútvrh. líka sáu að þeir höfðu verið á villigötum, of hræddir og of varfærnir. Ég tel að við eigum ekki að sækja það undir Norðmenn hvort við gerumst aðilar að þessu samkomulagi. Nú er ég mikill vinur Norðmanna og vil þeim allt hið besta. En ég tel ekki að við eigum að fara knékrjúpandi til þeirra og fara að spyrja þá um leyfi hvort við eigum að staðfesta þennan samning eða ekki.
    Hæstv. samgrh. hefur gert sitt til þess að torvelda úthafsveiðar Íslendinga því að hann er eindregið andvígur því að breyta skipaskráningunni þannig að hægt sé að skrá okkar úthafsveiðiskip undir íslenskan fána og hefur með því torveldað þessa atvinnustarfsemi.
    Varðandi tilganginn í því að samþykkja þennan samning, sem er kannski kjarni málsins, sé ég ekki annan tilgang beinni við það að staðfesta samninginn heldur en styrkja réttarstöðu okkar á Svalbarðasvæðinu, öðlast e.t.v. aukinn rétt, styrkja okkar réttarstöðu þarna á svæðinu. Og hverjir eru hagsmunir okkar á þessu svæði? Þeir eru fyrst og fremst fiskveiðar því að þó að hæstv. iðnrh. sé mikill starfsmaður og hugmyndaríkur, að vísu ekki loftkastalasmiður eins og fyrirrennari hans, þá á ég ekki von á því að hann fari að standa fyrir námugreftri á Svalbarða.