Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:43:43 (6063)


[17:43]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er nú svo með formannaskipti að mér fannst eiginlega kenna þess í máli hæstv. iðnrh., eða kannski ætti ég að segja bankamálaráðherra, að hann vildi láta okkur vita af því að sitt væri ríkið, mátturinn og dýrðin þessa dagana. Ég hygg nú að það geti vel verið að hann hafi einhver áhrif á formannsskipti í öðrum flokkum en hans dýrðardagar liggja náttúrlega í forustu fyrir sínum eigin flokki því að hann er öðruvísi en sumir aðrir formenn. Hann er ekkert rólandi milli flokka. Hann hefur verið stöðugur, fæddur inn í sinn Alþfl. Hann hefur ekki verið hlaupandi í Alþb. eða Frjálslynda og vinstri menn eða einhverja spútnikflokka. Hann hefur alla tíð verið í sínum Alþfl. og er nú að uppskera það að hann er að verða alveg óumdeildur foringi þess flokks og hlýtur að taka við honum innan fárra daga.