Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:51:48 (6065)


[17:51]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er stundum einkenni á umræðum hér að mönnum hættir til að drepa þeim svolítið á dreif. Hér er hvorki til umræðu formennska í Alþfl. né Framsfl. heldur till. til þál. um staðfestingu samnings um Svalbarða og ég vildi láta koma hér fram örfá orð af minni hálfu m.a. vegna þess að það hefur verið vitnað til þess að nefnd þar sem ég gegni formennsku hefur fjallað um þetta mál.
    Það má segja það um þessa þáltill. að hún er kannski nokkrum áratugum of seint á ferðinni. Auðvitað hefði það verið eðlilegt að Íslendingar hefðu sem fyrst gerst aðilar að samningi um þetta landsvæði sem er miklu nær okkur heldur en ýmsum öðrum þeim ríkjum sem hafa gerst aðilar að samningnum og miklu líklegra að Íslendingar eigi þarna hagsmuna að gæta heldur en ýmis þau landluktu ríki sem hafa gerst aðilar að þessum samningi. Reyndar eru nú liðin allmörg ár, eflaust áratugir síðan eitthvert ríki gerðist aðili að þessum samningi síðast, en það er ekki seinna vænna fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar.
    Það hefur komið fram í þessum umræðum að samningurinn um Svalbarða, sem gerður var í París 1920, er um eyjaklasann Svalbarða og hafsvæðið upp að 4 sjómílum þar í kring en hins vegar ekki um það úthafssvæði sem þar tekur við. Það er ekki augljóst mál að Íslendingar muni hugsa sér til hreyfings að því er varðar að hagnýta sér ákvæði þessa samnings til athafna á Svalbarða. Ég tel reyndar afar ólíklegt að svo verði. Ég tel reyndar að það fullveldi sem Norðmönnum var veitt með þessum samningi yfir eyjaklasanum sé afskaplega vel komið í höndum Norðmanna og þeir hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt þessum samningi mjög vel og það sé full sæmd af því hvernig þeir hafa staðið fyrir málum á undanförnum áratugum á Svalbarða.
    Menn minnast þess að á árum áður voru oft árekstrar við Sovétmenn út af framkvæmd þessa samnings en Sovétmenn hafa verið með töluverða starfsemi á Svalbarða, í Barentsborg og víðar. Sem betur fer eru það nú liðnir tímar að til árekstra komi milli Norðmanna og Rússa af pólitískum ástæðum um framkvæmd þessa samnings. Ég tel sem sagt að Norðmönnum hafi farist það afskaplega vel úr hendi að annast fullveldið yfir eyjaklasanum í samræmi við ákvæði samningsins. Þess vegna tel ég að menn tali hér um hlutdeild Norðmanna að þessu máli af ástæðulausri léttúð. Auðvitað er það sjálfsagt mál að hafa um það eðlilegt samráð við okkar nágranna- og vinaþjóð í Noregi þegar kemur að því að Íslendingar gerist aðilar að þessum samningi þó ekki væri vegna annars en þess að Norðmenn fara með fullveldi á eyjunum samkvæmt samningnum.
    Hitt er svo annað mál að þeir eru ekki vörsluríki samningsins eins og fram hefur komið. Frakkland er vörsluríki samningsins og þangað ber að beina tilkynningunni um aðild að samningnum. Hins vegar er það að mínum dómi eðlilegt kurteisismál að hafa fært það í tal við Norðmenn að þessar ráðagerðir stæðu fyrir dyrum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Að því leyti til er ég ósammála þeim ummælum sem fallið hafa í umræðunni þar sem menn hafa talað, að því er mér þykir, nokkuð galgopalega um aðild Norðmanna að samningnum.
    Þeirri spurningu hefur verið hreyft hér hvort þessi samningur muni færa Íslendingum einhverjar veiðiheimildir á svæðinu utan fjögurra sjómílna við Svalbarða. Þeirri spurningu hefur að mínum dómi verið svarað réttilega af hálfu þeirra sem að henni hafa vikið. Það er ekkert í þessum samningi eða aðild okkar að honum sem mun færa okkur sjálfkrafa veiðiheimildir á því svæði. Við erum hins vegar eina Norður-Atlantshafsríkið sem ekki hefur fiskveiðiheimildir á svæðinu og ég tel að aðild að samningnum muni ekki geta veikt okkar stöðu gagnvart hugsanlegum kröfum um veiðiheimildir í framtíðinni heldur, ef eitthvað er, frekar styrkt okkar stöðu.
    Þær umræður sem hér hafa hins vegar spunnist um veiðar í Smugunni og aðrar úthafsveiðar Íslendinga eru í raun og veru fyrir utan efni þessa samnings. Þær veiðar snerta ekki það svæði sem hér er um fjallað og nauðsynlegt þess vegna að gera greinarmun á því. Hins vegar var á það bent af hálfu þeirrar nefndar þar sem ég fer með formennsku, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, að eðlilegt væri að taka það skýrt fram af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart Norðmönnum sérstaklega að aðild okkar að þessu alþjóðlega samkomulagi við Svalbarða jafngildir ekki viðurkenningu okkar á því fiskverndarsvæði sem þeir tóku sér einhliða út að 200 mílum frá Svalbarða árið 1977. Það er mjög mikilvægt að það liggi skýrt fyrir.