Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:03:51 (6067)


[18:03]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki frekar en hæstv. viðskrh. að ræða þetta frv. efnislega en mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra um formsatriði þessa máls. Hér er gert ráð fyrir því samkvæmt 1. gr. frv. að lögfesta reglugerð sem birt er með frv. sem fskj. og mun þá að sjálfsögðu verða hluti laganna og koma inn í lagasafn. Það er augljóst að íslenska lagasafnið mun bólgna mjög ört með slíkum vinnubrögðum og verða þykkir doðrantar svipað og þær bækur sem við þingmenn erum nú að fá á borð okkar. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið hægt að búa hér til eðlilegt frv. um fjárhagsleg hagsmunafélög sem innihéldi nauðsynlegt efni um þau svipað og til eru lög um hlutafélög og samvinnufélög, slík félagsform, þannig að það hefði getað orðið miklu styttra mál í lagasafni og aðgengilegra en allt það langa mál sem hér er í þessari reglugerð. A.m.k. sýnist mér formáli reglugerðarinnar vera afar ólíkur því sem við eigum að venjast á lagamáli.
    Þetta væri held ég ólíkt líkara þeim vinnubrögðum sem við höfum haft við lagasetningu heldur en lögfesta hér ótaldar reglugerðir og setja í lagasafn.