Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:06:34 (6068)


[18:06]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kemur fram á bls. 13 í athugasemdum við einstakar greinar þá er hér sá háttur á hafður sem við höfum skuldbundið okkur til samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í athugasemd við 1. gr. frv. segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í samræmi við það sem segir í inngangi skal samkvæmt 7. gr. laganna um Evrópska efnahagssvæðið taka EES-gerðir, er samsvara reglugerðum EBE, sem slíkar upp í landsrétt samningsaðila. Með þessari grein er reglugerð ráðs EBE nr. 2137/85 um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög (efjh.) lögfest. Er gert ráð fyrir því að ákvæði hennar hafi lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, með áorðnum breytingum í lögum nr. 66/1993, þar sem bókunin er lögfest.``
    Hér erum við með öðrum orðum að standa þannig að framkvæmdinni sem við erum skuldbundin til samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem hefur hlotið lagaígildi á Íslandi þannig að við erum hér einfaldlega að framfylgja íslenskum lögum um hvernig á málunum skuli haldið eins og þau liggja fyrir eftir samþykkt Alþingis.