Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:08:09 (6069)


[18:08]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svar hans sem ég skildi þannig, og ég held að það hafi ekki farið á milli mála að sé á þann veg, að það nægi ekki að við lögtökum efnislega þau atriði sem eru í viðkomandi reglugerðum og lögfestum þau á þann hátt með íslenskri lagahefð, heldur verði að lögfesta langa lesningu sem ekkert á skylt við lagaákvæði. Ef við aðeins lítum á upphaf reglugerðarinnar og ég les hér örfá orð, með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir svo:
    ,,Samræmd þróun atvinnulífs og stöðugur og jafn vöxtur hvarvetna í bandalaginu er háður því að komið verði á sameiginlegum markaði er starfi hnökralaust þar sem aðstæður eru sambærilegar við þær sem

ríkja á innanlandsmarkaði. Til að koma þeim markaði á og styrkja einingu hans er rétt að setja lagalegan ramma til að auðvelda einstaklingum, félögum, fyrirtækjum og öðrum lögaðilum að laga starfsemi sína að efnahagslegum aðstæðum bandalagsins. Því er nauðsynlegt að gera þeim einstaklingum, félögum, fyrirtækjum og öðrum lögaðilum kleift að eiga með sér virkt samstarf án tillits til landamæra.``
    Ég ætla ekki að tefja tímann með að lesa lengra en þannig væri hægt að halda áfram með svipað efni og er held ég augljóst öllum að hefur enga þýðingu í sjálfu sér inn í íslenskt lagasafn, ekki efnislega þýðingu. Það er aðeins þá til að uppfylla þessi formsatriði að þar verði þetta inn að koma, en eins og ég sagði áður, þá mun það valda því að íslenskt lagasafn hlýtur að fara að verða ákaflega óaðgengilegt til þess að hafa undir höndum sem handbók.