Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:14:13 (6072)


[18:14]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hérna sé deila um keisarans skegg því auðvitað verður það ekki svo að þær reglugerðir sem hér um ræðir verði einhver leyniplögg sem hvergi er hægt að fá í opinberum plöggum útgefnum af réttum aðilum. Menn sjá það bara fyrir sér. Við erum hér að fara að staðfesta það regluverk sem liggur á borðum okkar frá Evrópsku efnahagssvæði. Ég tel það fráleitt að það sé gert ráð fyrir því að það verði hluti af hinu íslenska lagasafni í þeim skilningi þess hugtaks sem við leggjum í það í dag. Hins vegar verða þessi plögg að sjálfsögðu til og lögfræðingum og öðrum handhæg þó ekki beri þessi plögg titilinn Íslenskt lagasafn. Ég held að það sé alveg ljóst og við séum nánast að deila um keisarans skegg, þ.e. hvort það beri að kalla sameiginlegt safn íslenskra laga og reglugerða með lagaígildi íslenskt lagasafn eða hvort það eigi að skipta því í annars vegar hefðbundið lagasafn og hins vegar reglugerðaverkið sem samkvæmt því samkomulagi sem við höfum þegar gert og samkvæmt íslenskum lögum hefur lagaígildi á Íslandi.