Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:22:19 (6076)


[18:22]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem ég var að vitna til, það fordæmi á síðasta vetri, var um margt svipað og þetta frv. sem hér liggur fyrir. Frv. þá var lagt fyrir með sama hætti og þetta frv. nú en félmn. sem fékk það frv. til umfjöllunar fór rækilega yfir málið og þetta varð niðurstaðan, að breyta málinu eins og endanlega varð m.a. vegna þess að ef menn eru að lögfesta texta sem ekki er síðan prentaður með lögunum þá getur leikið vafi á því hvað er í gildi sem lög því að reglugerðin erlenda getur breyst frá einum tíma til annars og mér sýnist þó að ég muni ekki nákvæmlega þessa yfirferð frá fyrra ári að það komi upp álitamál ef menn breyta hinni erlendu reglugerð og hún á að gilda sem lög hér á landi eins og lagt er til í frv. hæstv. viðskrh. Eins og málið var frá gengið í fyrra, þá er ljóst að það verður að breyta í þessum lögum til þess að breytingin komist til skila.