Neytendalán

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:26:43 (6078)

[18:26]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 30/1993, um neytendalán. Þau lög voru samþykkt á Alþingi í apríl í fyrra og tóku gildi hálfu ári síðar. Setning laganna um neytendalán var liður í aðlögun íslenskrar löggjafar að evrópskum rétti í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu en þó ekki síður tilraun til þess að bæta réttarstöðu neytenda í skiptum við seljendur vöru og þjónustu.
    Megintilgangur laganna er að tryggja neytendum sem taka lán í tengslum við kaup á vöru og þjónustu og lán í banka ákveðin lágmarksréttindi og ákveðnar lágmarksupplýsingar frá lánveitanda áður en þeir gerðu upp hug sinn. Í þessu sambandi skiptir miklu máli að neytendur eiga rétt á að fá upplýsingar um allan kostnað sem fylgir lántökunni, bæði vexti og annan kostnað. Kostnaðurinn er gefinn upp sem hundraðshluti af lánsfjárhæðinni, svokölluð árleg hlutfallstala kostnaðar og í útreikningum er tekið tillit til lánstímans. Að þessari hlutfallstölu fenginni geta neytendur betur borið saman ólíka lánsmöguleika sem þeim standa til boða.
    Við gildistöku laganna um neytendalán 1. okt. í fyrra komu strax í ljós vandkvæði við framkvæmd þeirra. Skipta þar mestu máli óljós ákvæði 18. gr. laganna um tryggingu vegna vanefndakrafna í tengslum við framsal viðskiptabréfa. Í lögunum er ekki almenn reglugerðarheimild og því hefur ekki reynst unnt að útfæra ákvæðin nánar í reglugerð. Þá kom einnig í ljós að notkun hugtaka í nokkrum ákvæðum laganna var ónákvæm og ekki að fullu samræmd innan laganna sjálfra. Hefur það m.a. valdið vandkvæðum við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Einnig má nefna að í lögunum er ekki kveðið á um það hvaða aðili hafi eftirlit með framkvæmd þeirra.
    Þegar þessi atriði komu í ljós var ákveðið að skipa starfshóp til að fara yfir þau ákvæði frv. sem valdið höfðu vandkvæðum í framkvæmd. Í starfshópnum voru fulltrúar bankakerfis, viðskiptalífsins, neytenda, Samkeppnisstofnunar og viðskrn. Hópurinn skilaði ráðuneytinu fullbúnu frv. til laga um breytingu á lögunum um neytendalán og er það nú lagt fram í óbreyttri mynd.
    Þótt hópurinn stæði saman að tillögum sínum kom fram í starfi hans að bæði fulltrúi neytenda og fulltrúar viðskiptalífsins vildu ýmist ganga lengra eða skemmra í ýmsum atriðum. Er ekki að efa að sjónarmiðum þessara aðila verði komið á framfæri við hv. nefnd þegar fjallað verður um frv. þar.
    Ég tel ekki ástæðu til að gera grein fyrir öllum ákvæðum frv. en vísa þess í stað til skýringa við einstakar greinar þess. Hins vegar tel ég rétt að gera örlitla grein fyrir ákvæðum 11. gr. um tryggingar og 14. gr. um bótaskyldu og eftirlit með framkvæmd þessara laga.
    Í frv. um neytendalán sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi og varð að lögum var gert ráð fyrir að neytendalán með viðskiptabréfum heyrðu sögunni til. Er það í samræmi við það sem algengast er í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Alþingi féllst ekki á þetta sjónarmið. Ekki þótti Alþingi heldur rétt að breyta alfarið þeim almennu reglum sem gilda um viðskiptabréf og var því kveðið á um að viðskiptabréf skyldu undanþegin ákvæði 17. gr. laganna um möguleika neytenda til að halda uppi mótbárum við framsalshafa og meðábyrgð framsalshafa og lánveitanda. Þess háttar aðskilnaður var talin forsenda fyrir því að bankar og aðrar lánastofnanir vildu kaupa viðskiptabréf af seljendum vöru og þjónustu. Til að tryggja rétt neytenda var hins vegar ákveðið að seljendur vöru eða þjónustu sem veita lán í formi viðskiptabréfa skuli taka tryggingu til að mæta hugsanlegum vanefndakröfum neytenda vegna þeirra viðskipta sem að baki slíkum bréfum standa.
    Þetta ákvæði hefur valdið allnokkrum vandkvæðum í framkvæmd, fyrst og fremst vegna þess að það þarfnast nánari útfærslu. Sökum þess að almenna reglugerðarheimild skortir í lögin hefur ekki reynst unnt að gera þá útfærslu. Þá stóðu tryggingar af þessu tagi seljendum vöru og þjónustu ekki til boða þegar lögin tóku gildi því bankar og vátryggingafélög biðu eftir nánari útfærslu. Vegna þess að tryggingar skorti treystu bankar, sparisjóðir og aðrir sem kaupa viðskiptabréf af seljendum vöru og þjónustu sér ekki til að halda slíkum kaupum áfram eftir gildistöku laganna.
    Nú standa tryggingar af þessu tagi til boða en skilmálar þeirra byggjast að nokkru leyti á því að getið sé í eyður lagaákvæðisins umfram það sem viðskrn. telur að fyllstu heimildir standi til. Í 11. gr. frv. er lagt til að ákvæði þetta verði gert skýrara. Það er sérstaklega mikilvægt að meginatriðum tryggingarinnar sé lýst í lögunum sjálfum þar sem hliðstætt ákvæði er ekki í löggjöf annarra ríkja um neytendalán svo vitað sé.
    Í 1. mgr. þessarar greinar frv. er tekið fram að ákvæðið eigi aðeins við þegar seljandi veitir neytanda lán í formi viðskiptabréfs. Ef lánið er í öðru formi, t.d. sem kaupsamningur, þá gildir ákvæði 17. gr. Ákvæði 17. gr. gildir einnig þegar lán er veitt í formi viðskiptabréfs og ekki er til staðar trygging. Komi til framsals viðskiptabréfs undir slíkum kringumstæðum er framsalshafi meðábyrgur framseljanda. Í þessu felst breyting á meginreglu viðskiptabréfaréttar en samkvæmt henni glatast mótbáruréttur við framsal viðskiptabréfs.
    Virðulegi forseti. Í gildandi lögum um neytendalán er kveðið á um að brot á þeim geti valdið skaðabótaskyldu í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttarins. Ákvæðið tók breytingum í meðförum Alþingis því að í frv. að lögunum var gert ráð fyrir sérrefsiákvæðum og málsmeðferð að hætti opinberra mála. Báðar þessar leiðir eru afskaplega þungar í vöfum og því í raun ófullnægjandi fyrir neytendur. Því er í frv. lagt til að Samkeppnisstofnun verði falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og að samkeppnisráð fái heimild til að beita þá aðila dagsektum sem brjóta gegn ákvæðum þeirra. Er þar um að ræða sams konar ákvæði og í samkeppnislögum nema hvað sektarfjárhæðir eru fimmtungur af sektarfjárhæðum samkeppnislaganna. Jafnframt er lagt til að sama málsmeðferð gildi um brot gegn lögum um neytendalán og gilda um brot gegn ákvæðum samkeppnislaga, þó þannig að ákvörðunum samkeppnisráðs verður ekki vísað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
    Er það mitt álit að þær breytingar sem hér eru lagðar til leiði til skjótari úrlausnar mála og verði neytendum til hagsbóta. Það skal þó tekið fram að tillaga frv. kemur ekki í veg fyrir að neytendur geti krafist skaðabóta eftir almennum reglum skaðabótaréttar fyrir það tjón sem þeir telja sig hafa orðið fyrir ef lánveitandi fer ekki að ákvæðum laganna.
    Virðulegi forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.