Öryggi vöru og opinber markaðsgæsla

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:52:57 (6084)


[18:52]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér kemur enn eitt frv. þar sem orða má að upphefð vor komi að utan, frv. til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Frv. sama efnis, þ.e. frv. til laga um öryggi framleiðslu vöru var lagt fyrir Alþingi á 115. og 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Þetta frv. er samið á grundvelli fyrra frv. en hefur verið breytt í veigamiklum atriðum. Ástæður breytinganna eru nokkrar.
    1. Við undirbúning að sameiginlegum markaði Evrópubandalagsins ákváðu aðildarríki þess að setja nýjar og ítarlegri reglur um þetta efni og var það gert hinn 29. júní 1992. Sú tilskipun sem þá var sett mun einnig gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið og aðildarríkin verða að hafa lögfest efnisatriði hennar í síðasta lagi 1. júlí nk. Fyrra frv. hefur nú verið endursamið í því skyni að fella það betur að þeirri meginreglu sem þessi tilskipun hefur að geyma.
    2. Í frv. er kveðið á um reglur um öryggi vöru og þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti. Í fyrra frv. var þjónusta hins vegar ekki þrengd með þessum hætti. Er það í samræmi við norræna löggjöf að hafa þjónustuna einnig innifalda. Það er hins vegar ekki gert í tilskipun Evrópubandalagsins um öryggi framleiðslu og til þess að greiða götu þessa frv. var ákveðið að nota hina þrengri túlkun.
    3. Við umfjöllun um fyrra frv. komu fram athugasemdir um að þar væru takmörkuð ákvæði um framkvæmd laganna. Úr þessu hefur nú verið bætt með ítarlegum ákvæðum um opinbera markaðsgæslu. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmd laganna verði í höndum Löggildingarstofunnar og við hefur verið bætt ákvæðum um fjármögnun.
    Eins og fyrr segir er frv. þetta samið í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins skal samræma löggjöf aðildarríkjanna með tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til margvíslegra vöruflokka. Tilgangur þessarar samræmingar er tvíþættur:
    Í fyrsta lagi að sömu kröfur séu gerðar til vöru í því skyni að tryggja frjálsa vöruflutninga.
    Í öðru lagi að vörur uppfylli samræmdar kröfur um öryggi þannig að þær valdi ekki hættu fyrir neytendur, heilsutjóni eða skaða á umhverfi.
    Hér á landi eru í gildi ýmis lagaákvæði er varða öryggi vöru í einstökum vöruflokkum. Nefni ég sem dæmi ákvæði um vélar, vinnuvélar, katla, þrýstikúta og fleiri vörur af því tagi í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ákvæði um ökuktæki, barnabílstóla og hjólreiðahjálma í umferðarlögum og ákvæði um rafföng í lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins.
    Samkvæmt sérlögum hafa stjórnvöld ýmist heimild til eða er gert skylt að hafa eftirlit með vöru á markaði. Ákvæðin um það hvernig eftirlitið fer fram er hins vegar mjög takmörkuð í flestum tilvikum.
    Þegar setja á almenn lög á sviði þar sem fyrir eru mörg sérlög þarf að draga mörkin milli sérlaga og almennra laga. Í þessu tilviki þarf að móta hvaða þættir varðandi öryggi vöru eigi að vera í höndum Löggildingarstofunnar og hvaða þættir eigi að vera í höndum annarra stjórnvalda.
    Einfaldasta leiðin er e.t.v. að allt eftirlit með öryggi almenns neysluvarnings sé á ábyrgð sama aðila. Þessi aðferð hefur ýmsa kosti en gallar hennar eru að hætta sé á að farið sé á mis við mikilvæga sérþekkingu einstakra stjórnvalda sem þau hafa hvert á sínu sviði.

    Önnur leið er að gildissvið almennra ákvæða sé eins takmarkað og unnt er. Eftirlitið er þá að öllu leyti í höndum stjórnvalda sem annast framkvæmd sérlaga nema varðandi þá vöruflokka sem ekki falla undir slík stjórnvöld. Þetta var að miklu leyti sú leið sem valin var í fyrra frv. Við nánari athugun hefur hins vegar komið í ljós að þessi leið er ekki fær. Ástæður þess eru margvíslegar en fyrst og fremst er nauðsynlegt að samhæfa ýmsa þætti markaðseftirlitsins og í því felst hagkvæmni í framkvæmd sem ekki er unnt að ná með öðru móti.
    Þörf er fyrir samhæfingu af ýmsu tagi. Mikilvægt er að markaðseftirlit sé framkvæmt eftir samræmdum reglum og að reglurnar séu túlkaðar á samræmdan hátt. Í mörgum tilvikum er ekki ljóst undir hvaða stjórnvald tiltekin vara fellur og í öðrum tilfellum fellur vara undir fleiri en eitt stjórnvald. Augljóst er að einhver aðili verður að skera úr þegar ábyrgð skarast. Samkvæmt tilskipun um öryggi framleiðsluvöru er gert ráð fyrir að einn aðili annist samskipti við stofnanir EES vegna skipta á upplýsingum um hættulegar vörur. Því er nauðsynlegt að hér á landi sé einn aðili sem hafi yfirumsjón með þessu eftirliti. Auk þess má nefna að það eru augljósir hagsmunir þeirra sem framleiða, dreifa og selja vöru að einn aðili beri ábyrgð á öllu markaðseftirliti.
    Í ljósi þessa er gert ráð fyrir að tekin verði upp ákveðin verkaskipting milli Löggildingarstofunnar og ráðuneyta og stofnana sem bera ábyrgð á eftirliti vöru samkvæmt sérlögum.
    Verkaskiptingin er í stuttu máli sú að eftirlitsstjórnvöld (og viðkomandi ráðuneyti) setja reglur um þá vöruflokka sem undir þau heyra, móta meginstefnu um áherslur í markaðseftirliti, taka ákvarðanir um umfang eftirlits og fella úrskurði í einstökum málum.
    Löggildingarstofan hins vegar annast heildarskipulag opinberrar markaðsgæslu, sker úr um undir hvaða eftirlitsstjórnvald vöruflokkur heyrir leiki vafi á slíku og sér um samhæfingu þegar vara heyrir undir fleiri en eitt eftirlitsstjórnvald. Löggildingarstofan er eftirlitsstjórnvald fyrir þá vöruflokka sem ekki eru á ábyrgð annarra eftirlitsstjórnvalda samkvæmt sérlögum. Samningsgerð við skoðunarstofur annast eftirlitsstjórnvöld og Löggildingarstofan í sameiningu. Samvinna Löggildingarstofunnar, eftirlitsstjórnvalds og skoðunarstofu fer fyrst og fremst fram í samvinnunefnd. Með öðrum orðum, þar sem gilda sérlög er það viðkomandi ráðuneyti sem sér um eftirlit með öryggi vöru og þjónustu og þær stofnanir sem undir það heyra. Löggildingarstofan, verði þetta frv. að lögum, mun hins vegar annast samræmingu, skera úr ef vafi leikur á um undir hvaða stjórnvald varan eða þjónustan heyrir og taka að sér eftirlit með öryggi þeirrar vöru sem ekki fellur undir neitt sérsvið.
    Fjármögnun markaðseftirlits er nokkrum vandkvæðum bundin. Með niðurfellingu tæknilegra viðskiptahindrana næst umtalsverður sparnaður fyrir framleiðendur og innflytjendur og kostnaður við markaðseftirit mun aðeins nema hluta af þessum sparnaði. Eftirlit með vöru á markaði er að vissu leyti eðlilegur kostnaðarþáttur vöru og því eðlilegt að kostnaðurinn komi að sem mestu leyti fram í verði vöru sem er þess eðlis að talin er þörf á eftirliti með henni. Að auki virðast engin rök hníga að því að kostnaður við markaðseftirlit sé borinn af hefðbundnum skatttekjum ríkissjóðs. Kannaðar hafa verið leiðir til að leggja gjald á þær vörur sem haft verður eftirlit með. Þessi leið er ekki fær þar sem ekki er hægt að finna gjaldstofn sem hentar til þess. Lagt er til að fjármögnun markaðseftirlits verði einkum með þrennu móti.
    1. Gert er ráð fyrir því að þeir aðilar sem bera ábyrgð á vöru sem ekki uppfyllir settar reglur greiði þann kostnað sem hlýst af skoðun, prófun og öðrum nauðsynlegum þáttum vegna rannsóknar og aðgerða eftirlitsstjórnvalds.
    2. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að innheimta sérstakt markaðseftirlitsgjald sem lagt verði á þá aðila sem framleiða, dreifa og selja þær vörur sem eftirlit er haft með. Gjaldið verður breytilegt eftir því hve umsvif hvers aðila eru mikil og eftir skoðanatíðni sem m.a. ræðst af niðurstöðum fyrri skoðana hjá viðkomandi aðila. Til að byrja með er áætlað að aflað verði um 20 millj. kr. með þessum hætti og gjaldið geti numið frá nokkrum þúsundum kr. til nokkurra tuga þúsunda kr. á hvern aðila. Þessu gjaldi er einkum ætlað að standa undir kostnaði vegna vöruflokka sem nú er ekkert eftirlit haft með.
    3. Gert er ráð fyrir því að eftirlitsstjórnvöld greiði þann kostnað sem ekki er greiddur af gjöldum vegna markaðseftirlits. Eftirlitsstjórnvöld eiga nú þegar að hafa eftirlit með vörum á markaði og geta því af núverandi fjárveitingum staðið fyrir markaðseftirliti.
    Auk beins kostnaðar opinberra aðila mun nokkur kostnaður lenda á fyrirtækjum. Erfitt er að meta hversu hár slíkur kostnaður er, en hann ætti ekki að vera umtalsverður. Vert er að vekja athygli á því að sá kostnaður sem hér er gert ráð fyrir að lagt verði í er bein afleiðing af skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum og er hluti af áætlun sem ætlað er að draga úr kostnaði fyrirtækja við að koma vörum á markað. Þá er einnig rétt að minna á að markaðseftirlit er í eðli sínu fyrirbyggjandi starfsemi. Ekki þarf að koma í veg fyrir mörg slys á ári til að kostnaður við markaðseftirlit sparist í heilbrigðiskerfinu og annars staðar í þjóðfélaginu.
    Virðulegi forseti. Ákvæði frv. þessa virðast tiltölulega flókin við fyrstu yfirferð. Efni þess er hins vegar kunnuglegt hv. þm. og ég efast því ekki um að unnt ætti að vera að afgreiða það fyrir lok þinghalds í vor þannig að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar hvað þetta atriði varðar.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.