Fákeppni og samkeppnishindranir

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:25:43 (6090)


[15:25]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki flokkað eftir minni þau erindi sem Samkeppnisstofnun hafa borist og fjallað var um í skriflegu svari, í annars vegar ólöglegt verðsamráð og hins vegar kæruefni vegna fákeppni en þau eru engu að síður allnokkur. Ég minni í þessu sambandi á tvö, annað sem hv. fyrirspyrjandi rakti og var kæra um fákeppni á grundvelli hljómplötu- og hljómdiskaframleiðslu og sölu þeirra afurða. Í öðru lagi er einnig um að ræða fákeppnisaðstöðu sveppaframleiðanda sem hefur verið kærður fyrir að nota einokunaraðstöðu á markaðnum til þess að neita grænmetisheildsölum um sveppi til sölu þó þeir séu fyrir hendi hjá framleiðandanum.

    Þetta eru tvö dæmi sem ég man eftir í fljótu bragði, en eitthvað virðist vera um að kæruefni hafi líka verið á ferðinni í samkeppnisráði sem lúta að þessu þó vera kunni að hin séu fleiri. Um það get ég ekki dæmt því að ég tók það ekki saman í því yfirliti sem ég afhenti hv. fyrirspyrjanda áðan.