Afurðalánaviðskipti ríkisbankanna

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:35:04 (6094)

[15:35]
     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um afurðalánaviðskipti ríkisbankanna. Þessi fsp. er í fimm liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hvaða skilyrði þurfa ný sjávarútvegsfyrirtæki að uppfylla til að komast í afurðalánaviðskipti við ríkisbankana, Landsbankann og Búnaðarbankann?
    2. Þurfa slík fyrirtæki að leggja fram aðrar tryggingar en afurðir og þá hversu verðmiklar?
    3. Uppfylla öll sjávarútvegsfyrirtæki sem eru í viðskiptum við ríkisbankana áðurgreind skilyrði og tryggingar?
    4. Er það stefna ríkisbankanna að taka ekki ný sjávarútvegsfyrirtæki í afurðalánaviðskipti?
    5. Hvernig stuðla ríkisbankarnir að nýsköpun í atvinnulífi um allt land og þá sérstaklega í sjávarútvegi?``
    Virðulegur forseti. Það er afar mikilvægt á tímum atvinnuleysis að bankarnir taki fullan þátt í því að skapa atvinnu og fjölga atvinnutækifærum eins og kostur er með því að stuðla m.a. að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Því miður hafa borist fréttir um það að sérstaklega ný fyrirtæki hafi fengið neitun hjá ríkisbönkunum þegar eftir því er leitað hvort bankarnir séu tilbúnir til að veita afurðalán út á þá framleiðslu sem þau fyrirtæki ætla sér að flytja á markað erlendis. Þess vegna er mjög mikilvægt að það liggi fyrir á Alþingi hvernig staða þessa máls er og á hvern hátt bankarnir standa að því að reyna að treysta atvinnulífið, m.a. með því að stuðla að nýsköpun og hleypa að nýjum fyrirtækjum, m.a. í sjávarútvegi, og stuðla þannig að nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi.
    Ég legg þessar fyrirspurnir fram í ljósi þess og þeirra vona að hæstv. viðskrh. vilji vel og vilji stuðla að því að bankarnir komi inn í atvinnulífið með enn öflugri hætti og þá sérstaklega nýsköpun í atvinnulífinu og sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem við er að stríða núna á tímum atvinnuleysis.