Samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:47:15 (6098)

[15:47]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Í lögum um Seðlabanka Íslands segir eitthvað á þá leið, mig minnir í 23. gr., að Seðlabankinn skuli vera fjárhagslegur aðili fyrir ríkisins hönd að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er ekki mjög upplýsandi lagagrein en er víst sú eina sem er til að dreifa sem fjallar um þátttöku Íslands í því fyrirbæri sem er oft og tíðum sveipað dálitlum leyndardóms- og dularhjúpi, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, International Monetary Fund, eins og það heitir á alþjóðamálinu.
    Þegar flett er svo upp í t.d. ársskýrslu Seðlabankans og leitað fyrir sér hvað þar segir um samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og reyndar fleiri alþjóðastofnanir, er þar sömuleiðis ekki að finna mjög ítarlegar upplýsingar. Það kemur að vísu fram að virðulegir bankastjórar skipa að því er mér skilst sjálfkrafa jafnframt stjórnarsæti Íslendinga í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig var Jóhannes Nordal aðalfulltrúi Íslands fyrri hluta árs 1993 þangað til við tók af honum Jón nokkur Sigurðsson, mönnum að góðu kunnur í þessari stofnun. Nú hverfur hann væntanlega úr því starfi eða hefur jafnvel gert í dag og við tekið Birgir Ísl. Gunnarsson seðlabankastjóri eða einhver slíkur því ekki trúi ég því að aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans sé aðalfulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir að hann er kominn þar til starfa.
    Þegar svo í ársskýrslunni er nánar vikið að samskiptum Íslands við sjóðinn segir m.a.:
    ,,Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgist náið með þróun efnahagsmála í aðildarríkjunum og miðlar af þekkingu sinni og reynslu á sviði hagstjórnar. Eftirlitshlutverk sjóðsins hefur fengið sífellt meira vægi og eiga fulltrúar hans viðræður við stjórnvöld flestra aðildarríkja að jafnaði einu sinni á ári. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom til Íslands í nóvember 1993 og átti viðræður við fulltrúa stjórnvalda um stöðu og horfur í efnahagsmálum hér á landi.``
    Ýmsir hafa verið að forvitnast um það m.a. hvaða álit þetta merka fyrirbæri, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hefði á efnahagsmálum okkar Íslendinga, hverjir önnuðust upplýsingagjöf af Íslands hálfu og hverjir hefðu svo aðgang að þessu öllu saman en leikmönnum hefur gengið illa að fá í þetta botn svo að satt sé nú sagt frá. Ég hef því ákveðið að nýta mér rétt minn á Alþingi til að draga fram upplýsingar um það hvernig þessum málum sé fyrir komið og lagt fram eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra:
  ,,1. Hvernig er upplýsingagjöf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) háttað af hálfu íslenskra stjórnvalda?
    2. Hverjir fá í hendur eða hafa aðgang að upplýsingum, álitsgerðum eða athugasemdum sem sjóðurinn vinnur um Ísland í kjölfar heimsókna sendimanna þeirra hingað?
    3. Ber Íslendingum skylda til að fara með álitsgerðir sjóðsins sem trúnaðarmál að einhverju eða öllu leyti og ef svo er, hvers vegna?``