Kaup á slökkvibílum fyrir Flugmálastjórn

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:00:41 (6102)

[16:00]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fsp. fyrir hæstv. samgrh. sem varðar kaup á slökkvibílum eða slökkvibúnaði fyrir Flugmálastjórn.
    Eins og menn vita hefur mikið verið til umræðu á undanförnum mánuðum að æskilegt væri að opinberir aðilar og auðvitað allir reyndu eftir föngum að beina innkaupum og verksamningum til innlendra aðila. Þess vegna vekur það nokkra athygli að í nýframkominni flugmálaáætlun kemur það fram að á árinu 1991, og samkvæmt nánari upplýsingum sem ég aflaði mér var það síðla sumars það ár, gerði Flugmálastjórn samning við norskan framleiðanda um raðsmíði á fimm minni slökkvibílum með fyrirvara um fjárveitingar. Fyrsti bíllinn mun hafa komið til landsins 1992 og síðan sá næsti til Vestmannaeyja. Einn á að koma til Sauðárkróks í ár, til Hornafjarðar 1995 og Húsavíkur 1996. Þar með verði fullnægt ICAO-kröfum um slökkvibúnað á þessum stærri flugvöllum.
    Nú er það að sjálfsögðu gott og blessað en hitt er öllu lakara að þarna virðist hafa verið samið við erlendan framleiðanda og honum nánast fenginn í hendur raðsmíðasamningur sem auðveldaði honum að sjálfsögðu að smíða þessa bíla.
    Nú vill svo til að a.m.k. einn eða jafnvel fleiri innlendir framleiðendur hafa á sama tíma verið að reyna að þróa nákvæmlega sams konar verkefni, að framleiða slökkvibíla sem hentuðu sérstaklega fyrir flugvelli og fyrir sveitarstjórnir eða aðra slíka aðila sem slökkvibúnað þurfa að nota. Ég er sérstaklega með t.d. í huga slökkvibíl sem hefur verið hannaður í Ólafsfirði af framleiðendum þar og hefur fengið mjög jákvæða og lofsverða umsögn, bæði tækniaðila og notenda sem keypt hafa þann bíl. Manni finnst það auðvitað blóðugt þegar opinberir aðilar eru með allmikil innkaup sem dreifast á langan tíma eins og hér um ræðir að þau skuli þá ekki geta fallið í skaut innlendra framleiðenda.
    Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. samgrh.:
  ,,1. Hvað réð úrslitum um að Flugmálastjórn gekk til samninga við erlendan framleiðanda um raðsmíði fimm minni slökkvibíla til afhendingar á árunum 1992--1996?
    2. Var innlendum framleiðendum gefinn kostur á sambærilegum samningum?
    3. Kemur til álita að slíta samstarfinu við hinn erlenda framleiðanda og gefa innlendum aðilum kost á að framleiða þá bíla sem á að afhenda á næstu árum?``
    Að sjálfsögðu verða þegar gerð kaup ekki aftur tekin og væntanlega ekki bíll sem á að koma til afhendingar á þessu ári ef þegar hafa verið lög drög að framleiðslu hans, en mér leikur forvitni á að vita hvort t.d. væri mögulegt að beina því sem eftir er af innkaupum á slökkvibúnaði eða bílum til innlendra aðila í samræmi við anda átaksins íslenskt, já takk.