Ágangur sjávar og hefting sandfoks við Vík í Mýrdal

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:09:32 (6105)

[16:09]
     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram svohljóðandi fsp. til samgrh.:
    ,,Hefur ríkisstjórnin ráðgert aðgerðir til að verja þorpið Vík fyrir ágangi sjávar og hefta sandfok sem veldur miklum skaða á mannvirkjum staðarins?``
    Ég þarf hvorki að rekja það fyrir ráðherra né þingheimi hvað hefur verið að gerast austur í Vík, en þar hefur orðið bæði tjón á mannvirkjum og byggðinni er ógnað vegna ágangs sjávar og sandfoks. Má sem dæmi nefna að það er talið að frá 1971 hafi landbrot numið einum 350 metrum sem sjórinn hefur brotið af landi og komið nær þorpinu en hann var þá, þar af 160 metra núna á síðustu 3--4 árum og mjög mikið á síðustu vikum eins og frægt er.
    Það liggur fyrir að Vita- og hafnamálastofnun og Landgræðslan hafa unnið þarna rannsóknastarf og skoðað hvaða leiðir eru færar og ég veit að hæstv. ráðherra hefur komið á staðinn og er að vinna málið í ríkisstjórninni, en ég held að hér sé afar mikilvægt íbúanna vegna að brugðist verði við sem fyrst með aðgerðum því að þarna eru þorp og mannvirki í eigu fólks og fyrirtækja í mikilli hættu ef ekki verður brugðist skarpt við.
    Ég vænti þess því að ráðherra svari þessari fyrirspurn og fylgi málinu eftir á vettvangi ríkisstjórnarinnar.