Aðstoð við bændur vegna harðinda á síðasta ári

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:29:54 (6113)


[16:29]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. átti við þegar hann sagði að ekki væri á mínum svörum að byggja. Nú eru sérstök lög um Bjargráðasjóð og honum ber að bæta tjón með tilteknum hætti. Og það var auðvitað eðlilegt að landbrn., áður en það nýtti hinar sérstöku heimildir sem það hefur samkvæmt heimildagreinum fjárlaga, athugaði um það hvernig Bjargráðasjóður brygðist við, hverjar væru fjárheimildir hans og hvernig hann yfirleitt stæði að málinu. Það var líka eðlilegt að landbrn., áður en það úrskurðaði um reglurnar, kynnti sér ofan í hörgul hvert tjónið og hver skaðinn hefði orðið.
    Ég átta mig því ekki alveg á við hvað hv. þm. átti þegar hann sagði að ekki væri hægt að byggja á svari mínu áðan. Þvert á móti tók ég fram að við mundum nú taka málið til athugunar eftir að fyrir lægi hver væri niðurstaða Bjargráðasjóðs. Það er ekki langur tími liðinn síðan. Það var hinn 22. mars sem niðurstaða Bjargráðasjóðs lá fyrir og í þann tíma sem síðan hefur liðið hefur m.a. komið dymbilvika og síðustu vikurnar sem þingmenn hafa heimild til þess að leggja fram frv. eru alltaf annasamar af þeim sökum. Það er því ekki hægt að tala um það að þetta mál hafi dregist.
    Samkvæmt munnlegum upplýsingum sem ég hef frá Bjargráðasjóði skiptast bæturnar svo milli landshluta: Vestfirðir 2,5 millj., Norðurland vestra 4,6, Norðurland eystra 14,7, Austurland 20,8, Suðurland 3,6 millj. Hér skakkar 700 þús. kr. miðað við hinar skriflegu upplýsingar sem ég hef í höndum og ég hef ekki skýringar á því. Það eru 2,5 Vestfirðir, 4,6 Norðurland vestra, 14,7 Norðurland eystra, 20,8 Austurland, Suðurland 3,6 eða samtals 46,2 en heildarbætur nema 45,5 millj. kr. og ég kann ekki að skýra það.