Málefni aldraðra

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:34:39 (6115)


[16:34]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka við 3. umr. þau mótmæli og þær athugasemdir sem fram komu frá hv. þm. stjórnarandstöðunnar við 2. umr. málsins.
    Þannig háttar til að á þskj. 414 er frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra með síðari breytingum sem flutt er af hæstv. ríkisstjórn. Þar er gerð tillaga um það að heimilt verði að setja á laggirnar sérstakt öldrunarmálaráð sem fari með yfirstjórn öldrunarmála og gert var ráð fyrir að þetta yrði í Reykjavík, þ.e. í umboði borgarráðs og borgarstjórnar.
    Þar var gert ráð fyrir því að öldrunarmálaráðið yrði ekki undirnefnd félagsmálaráðs, eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum um málefni aldraðra, heldur mundi öldrunarmálaráðið heyra beint undir borgarráð og borgarstjórn. Borgarstjórn Reykjavíkur fór þess vegna fram á það að þessi stofnun yrði sjálfstæð og þar með sterkari en verið hafði.
    Það var afstaða okkar við 1. umr. málsins að það væri í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þó að farið væri að þessum óskum borgarstjórnar Reykjavíkur, en það væri ekki alveg sama hvernig frá þeim málum væri gengið og í raun og veru væri vandséð hvaða rök væru fyrir því að taka öldrunarmálaþáttinn út úr félagsmálaþættinum eins og gert var ráð fyrir í frv. Engu að síður sögðu menn svo sem: Úr því að stjórn sveitarfélagsins óskar eftir því að hafa þetta svona þá er ekkert óeðlilegt að það verði skoðað með jákvæðum hætti af þessari virðulegu stofnun.
    Þegar hv. heilbr.- og trn. fór að skoða þetta mál nánar þá kom það ótrúlega í ljós að við brtt., sem er í einni grein, frá hæstv. ríkisstjórn komu fimm brtt. frá hv. heilbr.- og trn. þar sem bæði var gert ráð fyrir því að breyta lögunum um málefni aldraðra og líka gert ráð fyrir því að breyta lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í sjálfu sér er hér mjög sérkennilega að hlutunum staðið og hefði verið eðlilegt við þessar aðstæður að málið hefði einfaldlega verið endurflutt sem nýtt stjfrv. eða þá að málinu hefði hreinlega verið vísað til ríkisstjórnarinnar. Minni hluti hv. heilbr.- og trn. kaus hins vegar til samkomulags að reyna að stuðla að því að málið fengi þinglega meðferð. Það kemur síðan hingað inn og við 2. umr. komu fram mjög alvarlegar athugasemdir við málið frá ýmsum hv. þm. stjórnarandstöðunnar.
    Hæstv. forseti þingsins sá ástæðu til þess að beiðni sem komið hafði fram frá nokkrum hv. þm. að fjalla sérstaklega um málið í úrskurði sem lesinn var af forsetastóli í tengslum við atkvæðagreiðsluna eftir 2. umr. málsins. Ég hygg að það sé í raun og veru næsta óvenjulegt að úrskurður af þessu tagi sé fluttur af forseta, að það sé talið óhjákvæmilegt að fjalla um málið á þann hátt, en það var ekki óeðlilegt að hæstv. forseti skyldi telja það óhjákvæmilegt m.a. vegna þess að það var talið að sú málsmeðferð sem hv. heilbr.- og trn. gerði ráð fyrir reyndi, að ekki sé meira sagt, talsvert mikið á þolrifin bæði í stjórnarskrá landsins og í þingskapalögum.
    Í ljósi þess úrskurðar sem felldur var var það niðurstaða okkar allmargra hér að sitja hjá við meðferð málsins eftir 2. umr. Ég man ekki betur en það hafi komið fram tvö mótatkvæði við því að máli færi til 3. umr. þar sem það væri vanbúið. Í raun og veru þyrfti það að fá nýja þingmeðferð og fjallað yrði um það eins og önnur þingfrumvörp. En það frv. sem við erum núna með á borðinu, hæstv. forseti, hefur ekki fengið nema eina meðferð. Það hefur aðeins ein umræða farið fram um þetta frv. Og samkvæmt lögum landsins er það þannig að um lagafrumvörp eiga að fara fram þrjár umræður. Það er þess vegna fráleitt að afgreiða málið með þeim hætti sem virðist vera meiningin að gera án þess að það fari á ný til hv. heilbr.- og trn. Ég teldi að eðlilegast og lámarksatriði að málið færi á ný til hv. heilbr.- og trn., hún fjallaði um málið, skilaði á ný nál. um frv. eins og það lítur út á þskj. 921 og það gengju svo atkvæði um málið að þeirri umræðu lokinni og þá færi enn fram umræða, þ.e. sú fjórða, en þriðja um þetta mál samkvæmt sérstökum undanþáguákvæðum sem liggja fyrir í þingsköpum.
    Ég vil beina þessu mjög alvarlega til hæstv. forseta og benda á þann möguleika að til þess geti komið að flutt verði tillaga um að málinu verði á ný vísað til hv. heilbr.- og trn. vegna þess hvernig málið er í pottinn búið og vanbúið að mörgu leyti sem frv. til endanlegrar afgreiðslu, en nú er gert ráð fyrir því, samkvæmt því sem mér skilst, að málið verði að lögum í lok þessarar umræðu þó svo það hafi í raun og veru ekki fengið þrjár umræður eins og skylt er samkvæmt lögum landsins og stjórnarskrá.