Birting laga og stjórnvaldaerinda

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:41:15 (6116)

[16:41]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir og er nú til umræðu felur í sér að heimilt verður að birta reglur, sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum öðrum en ráðuneytum er falið að gefa út lögum samkvæmt, megi birta í Stjórnartíðindum. Svo háttar til að í ýmsum lögum er kveðið á um að tilteknar opinberar stofnanir gefi út reglur sem bindandi eru og almenningur hefur hagsmuni af að birtar séu með formbundnum hætti. Svo háttar einnig til að samkvæmt gildandi lögum geta aðeins ráðuneytin birt slíkar ákvarðanir, reglugerðir og auglýsingar í Stjórnartíðindum, en til þess að gera þessa stjórnsýslu virkari og aðgengilegri fyrir almenning er lagt til að þessi heimild sem hér er kveðið á um verði í lög fest.
    Tilefni þessa er fyrst og fremst ákvæði sem Alþingi samþykkti í lögum um Seðlabanka Íslands þar sem kveðið er á um ýmiss konar reglur sem bankanum er ætlað að taka ákvarðanir um og eðlilegt þykir að birta með þessum hætti.
    Ég vil taka það fram að mjög æskilegt er þó að áliðið sé þings að unnt verði að koma þessari lagabreytingu við á þessu vorþingi og mun því mælast til þess við hv. allshn. að hún hraði afgreiðslu málsins svo sem föng eru á.
    En ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.