Birting laga og stjórnvaldaerinda

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:49:57 (6119)


[16:49]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Út af fyrir sig er það þá ljóst og liggur fyrir að eitt sérstakt tilefni er þarna á ferðinni, bréf frá viðskrn. vegna Seðlabankans sem þarf að koma ýmiss konar reglum á framfæri og allt í góðu lagi með það. En hér er hins vegar valin sú leið af hálfu hæstv. ráðherra að leggja til almenna breytingu sem tekur til allra þeirra tilvika þar sem um er að ræða lögbundna útgáfu opinberra stjórnvalda, sem eru bæði ríki og sveitarfélög og stofnanir, að birta reglur af mér liggur við að segja hvaða toga sem er. Ég held að það sé miklu stærri ákvörðun heldur en kannski í fljótu bragði virðist og þurfi þess vegna svolítið vandlegrar skoðunar við án þess að ég sé á nokkurn hátt að leggjast gegn því að þetta verði heimilað gagnvart t.d. Seðlabankanum og hugsanlega ýmsum öðrum sem eru í sambærilegri stöðu, þá held ég að menn verði að átta sig á umfangi málsins og hvað er verið að fara.
    Ég sakna þess þá nokkuð að það skuli ekki fylgja frv. t.d. eitthvert yfirlit yfir það um hversu víðtæka breytingu er hér að ræða. Hvað verður B-deild Stjórnartíðindanna þykk bók í framhaldi af þessu? Ég segi þetta ekki með vísan til þess á nokkurn hátt að draga úr mikilvægi útgáfu Stjórnartíðindanna. Það er auðvitað alveg ljóst að það er mjög mikilvægt að þessir hlutir séu þar allir skýrt og skilmerkilega saman safnaðir þannig að menn geti flett upp í því á einum vísum stað. En þessar reglur og þetta dótarí allt saman er nú sennilega býsna fjölbreytilegt og það hljóta líka að vakna spurningar um meðferð þeirra og birtingu að öðru leyti. Á t.d. að láta það þá nægja í flestum tilvikum að þetta birtist í B-deild Stjórnartíðindanna eða er þetta viðbótarbirting á hlutum sem jafnframt skulu birtir í dagblöðum eða með öðrum slíkum hætti?
    Og mér finnst þetta dálítið fátæklega fram borið hérna, ég varð að segja það, hæstv. forseti, bara í fullri hreinskilni að þessu fylgi ekki meiri rökstuðningur en raun ber vitni, ekki meiri upplýsingar eða gögn, engin úttekt á því hvað þarna er á ferðinni og upplýst er svo að þarna er þetta eina tilefni á ferðinni sem er hins vegar lagt fram hér sem almenn breyting.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, ekki ástæða til af minni hálfu, en ég vildi eindregið mælast til þess að hv. nefnd færi rækilega yfir það hvaða breytingu í reynd praktískt talað er verið að leggja til.