Birting laga og stjórnvaldaerinda

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:53:15 (6120)


[16:53]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég sat í nefnd sem samdi seðlabankalög þá vil ég undirstrika nauðsyn þess að tillaga sú sem hér er lögð fram af hálfu hæstv. ráðherra verði samþykkt. Þó vil ég líka undirstrika það að rök þau sem hv. 4. þm. Norðurl. e. kom með um það að þetta gæti dregið stóra dilka á eftir sér, að öllum opinberum fyrirtækjum væri skylt að birta reglur sínar um smávægilegustu efni og jafnvel reglugerðir í Stjórnartíðindum, það þarf að athuga það vandlega að það fari ekki úr böndunum. Það finnst mér sjálfsagt. Á sama hátt og það er nauðsynlegt fyrir Seðlabankann að eiga innhlaup í Stjórnartíðindin til að koma sínum tilkynningum á framfæri á einhverjum einum ákveðnum stað þar sem allir geta leitað í, þá er hitt líka rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði. Því treysti ég því að sú hv. nefnd sem mun fjalla um tillöguna finni leið til þess að orða hana þannig að hún þjóni þeim tilgangi sem ætlað er. Það var alveg ljóst þegar við ræddum um þetta í seðlabankalaganefndinni þá hugsuðum við okkur að þetta gæti birst í Stjórnartíðindum og ég undirstrika að það er nauðsynlegt að þessi heimild fáist.