Áfengislög

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:55:35 (6121)

[16:55]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. um breytingu á áfengislögum eins og þau hafa verið samþykkt með síðari breytingum. Hér er um að ræða tvær efnislegar breytingar á gildandi löggjöf um þetta efni.
    Í 1. gr. frv. er fjallað um sérstök tæki og sérhæfð áhöld sem smíðuð eru til þess að eima áfengi eða til þess að gera drykkjarhæft áfengi sem ódrykkjarhæft var áður. Hér er gert ráð fyrir því að bannað sé að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til þess að gera drykkjarhæft áfengi sem ódrykkjarhæft var nema hafa til þess sérstakt leyfi og er ráð fyrir því gert að dómsmrn. setji um þetta efni nánari reglur og fyrirkomulag leyfisveitinganna. Tæki sem finnast síðan hjá öðrum aðilum en þeim sem hafa leyfi samkvæmt þessari grein skulu gerð upptæk án tillits til hvort tækin hafa verið notuð til áfengisgerðar eða ekki.
    Það er rétt að taka það fram að hér er um að ræða breytingu á 8. gr. núgildandi áfengislaga. Tvær fyrstu mgr. 8. gr. yrðu óbreyttar eins og hér kemur fram en með þessari breytingu gefst betra tækifæri til þess að spyrna við fótum varðandi ólöglega framleiðslu á áfengi. Eins og hv. alþm. er kunnugt um þá hefur í vaxandi mæli á undanförnum missirum borið á því að slík starfsemi hafi verið stunduð og áfengi selt, ekki síst til unglinga, við slíka framleiðslu. Það hefur hins vegar valdið erfiðleikum, ekki síst þegar um hefur verið að ræða smíði á slíkum tækjum sem ekki hefur verið í beinum tengslum við framleiðslu af þessu tagi að færa á það sönnur að um tengsl væri að ræða við ólögmæta framleiðslu. Því hefur þótt nauðsynlegt til þess að gefa réttum yfirvöldum betri aðstöðu til að taka á þessum vanda að óska eftir lagabreytingu af þessu tagi.
    Hitt efnisatriði frv. lýtur að því að heimila fjmrn. að gefa afslátt frá almennu útsöluverði til þeirra sem hafa almennt vínveitingaleyfi. Hér er um að ræða breytingu sem skattrannsóknastjóri hefur lýst miklum áhuga á að gerð verði til þess að auðvelda eftirlit með þessari starfsemi. Mjög stór hluti af áfengissölu fer nú fram undir leyfum sem kallast tækifærisvínveitingaleyfi og áhugi skattyfirvalda hefur beinst að því að koma þessum málum í fastara form þannig að stærri hluti þessarar áfengissölu á skemmtistöðum fari fram þar sem um er að ræða almenn vínveitingaleyfi. Með breytingu af þessu tagi á að vera hægt að auka eftirlit á þessu sviði og skapa þannig traustari umgjörð um þessa viðkvæmu starfsemi sem hér er verið að fjalla um. Fyrir því er lagt til að þessi heimild verði veitt í áfengislögum.
    Ég legg svo til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.