Áfengislög

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 17:09:02 (6124)


[17:09]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni athyglisvert frv. til laga um breytingu á áfengislögum sem eins og fram hefur komið er í raun og veru tveir efnisþættir þó að verið sé að ná utan um sama vandamálið með tvenns konar hætti því að ef glöggt er skoðað þá kemur í ljós að bæði í 1. og 2. gr. er verið að reyna að leggja til aðferð til þess að reyna að ná utan um þá alvarlegu vá sem sala á heimabruggi hefur orðið í okkar þjóðfélagi og enginn skyldi gera lítið úr. Það er auðvitað öllum ljóst að þessi alvarlega vá hefur verið að skapa hér vandamál sérstaklega hvað varðar unglingana og það er sjálfsagt mál að reyna að ná utan um þetta.
    Það er gerð tilraun til þess með þessum tveimur efnisgreinum í frv. að nálgast þetta vandamál eftir tveimur leiðum: Annars vegar að grípa til strangara eftirlits með eimingartækjum og hins vegar hitt, sem fram kemur raunar í athugasemdum við lagafrv., að með þeirri hugmynd að gefa heimild til þess að veita afslátt á kaupum heildsöluaðila á áfengi þá sé hægt að stuðla að því að menn hafi hag af því að kaupa áfengi eftir sölukerfi ÁTVR til veitingahúsa. Ég er alveg sammála því að það þarf auðvitað að ná utan um þetta mál og beita til þess þeim ráðum sem skynsamlegust eru en ég verð hins vegar að játa það að ég held að það séu ekki nægilega sterk skil gerð hér á milli þess sem ég vil telja að sé vandinn, þ.e. hin mikla sala á heimabrugguðu áfengi sem vissulega er til staðar og hefur komið upp á undanförnum mánuðum og er vandamál sem þarf að taka á. Og hins vegar hitt sem ég vil kannski nefna þennan sjálfsþurftarbúskap sem hefur ríkt á sumum stöðum þar sem menn hafa verið að brugga sér til gamans. Og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. að því með hvaða hætti hann hyggist nýta þá heimild ef hún fæst með samþykkt þessara laga til þess að gefa út sérstök leyfi til að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem ódrykkjarhæft var.
    Hér er auðvitað um að ræða tvö mál. Í fyrsta lagi þessa sölu sem er alvarlegt mál og hitt sem er auðvitað þekkt að er pínulítil heimilisiðja, pínulítill sjálfsþurftarbúskapur sem menn hafa stundað fyrst og fremst sér til ánægju og þess vegna vaknar sú spurning: Hvaða breytingu hefði þetta frv., ef samþykkt yrði, á þennan búskap?
    Þetta var eiginlega sú spurning sem mig langaði til að bera upp við hæstv. dómsmrh. vegna þess að ég hef orðið var við það í umræðum manna á meðal að menn hafa velt þessu dálítið fyrir sér og ég er

þeirrar skoðunar að iðja af þessu tagi sé ekki neitt þjóðfélagslegt vandamál. Það væri mjög illa farið með tíma löggæslumanna vorrar þjóðar ef það yrði þeirra hlutskipti að ganga á milli húsa til að kynna sér það hvort menn ættu í kjöllurum sínum eða geymslum tæki sem þeir hefðu flutt inn, látið útbúa eða smíða til þess að eima áfengi eða gera drykkjarhæft áfengi úr því ódrykkjarhæfa, breyta ódrykkjarhæfu vatni í vín, svo að ég hafi nú yfir texta frv. Þetta er sem sagt sú spurning sem ég vildi spyrja hæstv. dómsmrh. að.
    Síðan að lokum, virðulegi forseti, er hér í merkum bókum sem hefur verið dreift á borð þingmanna, þá er kynnt í 6. bók, sem enn er óútkomin, bókun 47 um afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín. Þá vaknar auðvitað þessi spurning: Var þessi bókun höfð sérstaklega til hliðsjónar við samningu þessa frv. og er nokkur ástæða til þess að ætla að svo kunni að vera að frv. gæti á einhvern hátt stangast á við þessa merku bókun sem við eigum eftir að lesa þegar við fáum að lokum á borð okkar bók 6 með nokkrum viðaukum við EES-samninginn eins og allir vita?