Áfengislög

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 17:14:29 (6125)


[17:14]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Vegna fyrirspurna frá hv. 9. þm. Reykn. er rétt að taka fram að þetta frv. er afmarkað við þau tvö atriði sem hér um ræðir, en eðlilegt getur verið að taka sérstaklega til skoðunar þau atriði sem hv. þm. benti á eins og framkvæmd á banni við auglýsingum á áfengi.
    Spurning um það hvort þessi aðgerð sé í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt í áfengismálum þá er ég þeirrar skoðunar að hún sé í fullu samræmi við þá stefnu. Það sé mjög til bóta að koma á meiri festu um þessi efni eins og hér er verið að opna möguleika á með þessari framkvæmd.
    Varðandi þau álitaefni sem hv. 3. þm. Vesturl. varpaði fram þá er það svo að sá vandi er einmitt fyrir hendi í dag eins og lögin eru úr garði gerð. Það er í mörgum tilvikum erfitt að færa sönnur á hvort notað eigi tæki í ólögmætum tilgangi eða hvort þau hafa verið notuð í ólögmætum tilgangi. Það er einmitt til þess að taka á þeim vanda sem frv. er flutt. Það er með öðrum orðum gert hér ráð fyrir því að menn verði að fá sérstakt leyfi til þess að smíða eða eiga tæki af þessu tagi. Hver og einn sem óskar eftir leyfi til þess getur um það sótt og þá verður það metið samkvæmt sérstökum reglum. Hafi menn slíkt leyfi, þá eru menn lausir undan þeim grundsemdum sem ella eru uppi. Hafi menn ekki þetta leyfi þá eru tækin gerð upptæk. Hér er um mjög skýra og skilmerkilega reglu að ræða og ég held að með öðru móti verði ekki komið við virkri framkvæmd í þessu efni. Allir þeir sem hafa lögmætan rökstuðning fyrir því að smíða tæki af þessu tagi til lögmætrar starfsemi geta sótt um leyfi til þess og eru þá lausir við allar grundsemdir í þeim efnum. Ég held því að það sé ekki unnt að gera þetta með skýrari hætti og vandinn sem við er að etja í dag er einmitt sá sem hv. þm. nefndi.
    Varðandi ræðu hv. 3. þm. Vestf. sem fjallaði hér um það sem hann kallaði sjálfsþurftarbúskap í þessum efnum þá er ekki með þessu lagafrv. verið að stíga skref til þess að breyta gildandi reglum í þessum efnum. Það er einvörðungu verið að tryggja að það sé hægt að ganga að þessum tækjum og auðvelda löggæsluyfirvöldum og dómstólum að taka á ólögmætri starfsemi af þessu tagi en ekki á nokkurn hátt verið að opna fyrir það að breyta þeim reglum sem um þessi efni gilda að öðru leyti. Ég vek athygli hv. þm. á 1. mgr. 8. gr. sem er gert ráð fyrir að verði óbreytt frá gildandi lögum, en þar segir:
    ,,Upptæk skal gera öll áhöld sem með ólögmætum hætti á að nota eða hafa verið notuð við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja eða til þess að gera drykkjarhæft það áfengi sem ódrykkjarhæft var.``
    Þessi grundvallarregla stendur áfram og með þessu er ekki verið að gera tillögur um að víkja þar frá. Það er annað mál og óskylt. Hér er fyrst og fremst verið að auðvelda réttum yfirvöldum að takast á við vanda sem hefur í vaxandi mæli borið á að undanförnu. Löggæslan hefur gengið víðast hvar mjög vel fram í því að uppræta slíka starfsemi en þarf gleggri og ákveðnari heimildir til þess að geta gert tæki upptæk sem verið er að smíða eða eru notuð í starfsemi sem þessari.