Alþjóðadómstóllinn sem fjallar um stríðsglæpi í Júgóslavíu

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 17:20:21 (6126)

[17:20]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu, en slíkum dómstóli er komið á fót samkvæmt sérstakri samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Íslendingum eins og öðrum er skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fylgja þeim samþykktum eftir.

    Það er rétt að taka fram að ekki er líklegt að reyni á þessi ákvæði en eigi að síður er nauðsynlegt að hafa allar heimildir fyrir hendi til þess að fullnægja megi þeim skyldum sem á okkur eru lagðar í þessu efni. En hér er um að ræða ákvæði um framsal sakamanna sem þessi alþjóðadómstóll fjallar um, um réttaraðstoð af ýmsu tagi eins og skýrslugjöf, hvernig að henni skuli standa og hvernig hana skuli framkvæma og loks atriði að því er lúta fullnustu dóma alþjóðadómstólsins. Þetta eru þau meginsvið sem frv. þetta tekur til. Það þótti rétt með tilliti til þess hversu alvarleg þau mál eru sem hér er verið að fjalla um og hversu brýnt það er að allar lagareglur um þessi efni séu skýrar að fullnægja okkar skuldbindingum með sérstökum lögum. Að öðru leyti vísa ég til athugasemda með frv., bæði almennra athugasemda og athugasemda við einstakar greinar, en legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.