Alþjóðadómstóllinn sem fjallar um stríðsglæpi í Júgóslavíu

128. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 17:22:48 (6127)


[17:22]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að mæla fyrir þessu frv. Ég tel að það sé mjög eðlilegt miðað við það samstarf þjóða og það samhengi sem við búum í í heiminum að allar þjóðir, Íslendingar sem aðrir, gangi frá lagaramma þannig að unnt sé að framfylgja alþjóðasamþykktum eftir því sem á þær reynir, jafnvel þótt ekki sé sérstaklega fyrirsjáanlegt að á þær reyni hér á landi. Þetta er einungis eðlilegur þáttur af sameiginlegu samstarfi að í fyrsta lagi sé hvergi efnt til griðlanda fyrir stríðsglæpamenn og í öðru lagi að ef á reynir þá fái þeir réttláta málsmeðferð sem er samræmi við alþjóðalög og ákvæði sem alþjóðastofnanir hafa komið sér saman. Hér er því bæði um að ræða að við tryggjum okkur fyrir því að vera ekki utanveltu þar sem tekið er á mjög alvarlegum málum varðandi stríðsglæpi í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og einnig það að við gætum að sjálfsögðu fyllsta réttar þeirra sem kunna að vera bornir þeim sökum að hafa tekið þátt í stríðsglæpum.
    Mig langar aðeins þó að það sé ekki efni frv. að geta lítillega um þá ályktun sem fylgir frv. sem fskj. I. Þar kemur einmitt fram að skilgreiningar á stríðsglæpum hafa verið endurskoðaðar mjög í takt við þá alvarlegu glæpi sem framdir hafa verið víða í lýðveldum fyrrum Júgóslavíu. M.a. hefur verið tekið á máli sem vakti mikinn óhug og mikla umræðu hér á sl. ári en í ályktuninni er sagt að einnig sé átt við að mannréttindi séu brotin með því að miklum fjölda kvenna hefur kerfisbundið verið haldið föngnum og nauðgað. Þetta er lagt að jöfnu við þær þjóðernishreinsanir sem hafa átt sér stað í þessum löndum. Ég vil vekja athygli á þessu þar sem hér er í rauninni verið að taka mun afdráttarlausara á skilgreiningu á stríðsglæpum heldur en gert hefur verið áður. Því miður er það að gefnu tilefni.
    Varðandi málefni fyrrum Júgóslavíu þá mun það án efa verða mjög erfitt framkvæmdaratriði á hvern hátt menn verða dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi. En það þýðir ekki að ekki eigi að reyna að taka þessi mál fyrir. Það á ekki að líða það í alþjóðasamstarfi að glæpir séu framdir gagnvart ákveðnum hópum vegna þjóðernis, trúarbragða, kynferðis eða einhvers annars. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að þegar mikið hefur reynt á þá verði reynt að fylgja því eftir þannig að skilaboðin til heimsbyggðarinnar séu ekki þau að hægt sé að komast upp með hvaða glæpi sem er. Þetta er sameiginleg samviska og sameiginleg ábyrgð allra ríkisstjórna og alls heimsins í raun og veru.
    Ég vil líka vekja athygli á því að umræðan á Vesturlöndum hefur verið mjög á eina hlið. Vissulega hafa stríðsglæpir verið framdir af öllum aðilum í þessu hörmulega stríði og í öllum lýðveldum fyrrum Júgóslavíu og ég tel það mjög mikilvægt að það verði eins ábyrg og eins hlutlaus rannsókn á þessu máli og unnt er. Ég vil vekja athygli á því að á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins mun einn af þingmönnum á Alþingi Íslendinga væntanlega fara á þessu ári í leiðangur sem m.a. verður til þess að kynna sér aðstæður með tilliti til mannréttindabrota í lýðveldum fyrrum Júgóslavíu, en það er hv. 8. þm. Reykv., Geir H. Haarde. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt, ekki einasta fyrir Alþjóðaþingmannasambandið og þá ábyrgð sem þingmenn um allan heim bera heldur einnig fyrir okkur hér á Íslandi að geta þannig tekið þátt í því að fylgjast með og fylgja eftir því sem óhjákvæmilega hlýtur að koma nú í kjölfarið á þessu stríði sem vonandi sér fyrir endann á nú á næstu mánuðum þrátt fyrir þær loftárásir sem hafa verið gerðar í Gorazde og vekja alla vega með mér nokkurn ugg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum ábyrgan þátt í alþjóðasamstarfi og ekki síst á sviði mannréttindamála.