Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:40:20 (6132)


[13:40]
     Gunnlaugur Stefánsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Vegna fram kominnar hugmyndar hv. þm. Svavars Gestssonar um að það væri þörf á því að frv. til laga um málefni aldraðra færi aftur til hv. heilbr.- og trn., þá vil ég upplýsa það að þetta mál fékk mjög ítarlega umfjöllun í hv. þingnefnd og það er ástæða til að þakka öllum hv. nefndarmönnum fyrir það góða starf. Þar lögðu allir sitt af mörkum. Og niðurstaðan úr því góða og mikla starfi var útgáfa á brtt. eins og málið liggur núna fyrir til afgreiðslu 3. umr.
    Þá má geta þess að hv. félmn. kom einnig að málinu en það var sent henni til umsagnar, m.a. með sérstöku tilliti til þess að nauðsyn bar til að gera tillögu um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Mér er kunnugt um að þar hafi málið fengið góða umfjöllun og aftur sent til hv. heilbr.- og trn. og enn tekið þar til afgreiðslu og er nú til umræðu á þeim grundvelli sem hv. nefnd leggur til. Ég tel að þetta mál hafi fengið ítarlega og góða umfjöllun í hv. þingnefndum og ekkert komið fram hér í umræðum sem gefur tilefni til að breyta efnisatriðum frv. Ég legg áherslu á að málið geti verið endanlega afgreitt hér á hinu háa Alþingi og ég vona að hv. heilbr.- og trn. hafi skilað sínu verki vel.