Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:44:49 (6134)


[13:44]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þá athugasemd sem ég gerði hér við 2. umr. þessa máls. Þetta mál er afar einfalt. 37. gr. laga um þingsköp hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekki er lagafrumvarp samþykkt til fullnaðar fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður.``
    Sú brtt. við frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kom hér fram við 2. umr. og hefur því ekki hlotið nema tvær umræður. Svo einfalt er það. Ég get hins vegar fallist á það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði að umræðu er lokið en ég held að til samkomulags gæti það verið útlátalaust að hér yrði afgreidd breyting á lögum um málefni aldraðra sem liggur fyrir á þskj. 921 en síðan legði hæstv. félmrh. fram brtt. þá sem liggur hér einnig frammi í sérstöku frv. þannig að það mál fengi eðlilega þinglega meðferð. Það munu allir vera tilbúnir til að samþykkja það, en það segir sig sjálft að það er ekki ásættanlegt að menn taki upp þessi vinnubrögð og sem einn af forsetum þessa þings tel ég skyldu mína að benda á þetta. Ég vil ekki standa að þeim úrskurði sem hér var felldur af hálfu hæstv. forseta að þessi málsmeðferð sé eðlileg. Mér finnst það ekki vera. Ég er hrædd við það fordæmi sem hún gefur og það er fráleitt að bera þetta saman við svokallaða bandorma sem við höfum raunar margsinnis gagnrýnt og þykir heldur leiðinleg lagasetning, en hún er þó allt annars eðlis vegna þess að þegar um bandorm er að ræða fer allt frv. í gegnum þrjár umræður. Ég vil því biðja hæstv. forseta að reyna að ná samkomulagi við þingið um þetta mál og ég efast ekki um að hæstv. félmrh. er fús til að leggja frv. fram og ég treysti mér til að vinna að því að það frv. færi hraðferð hér í gegnum þingið.