Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:47:17 (6135)


[13:47]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Ég tel að þessi deila hafi skapast vegna óvandaðra eða ónákvæmra vinnubragða. Hin rétta málsmeðferð hefði að sjálfsögðu verið að félmn. eða hæstv. félmrh. eða einstakir þingmenn hefðu flutt frv. til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það var ekki gert en ég skal ekki segja hvort það er tækifæri til að bæta úr því héðan af. Ég held að það sé ekki forhlaup í tíð. Það alvarlega í málinu er það að þessi málsmeðferð skapar fordæmi. Menn hafa verið að vitna hér til bandorma, en þá hefur yfirleitt verið um það að ræða að efh.- og viðskn. hefur sett inn brtt. við frumvörp sem hafa verið á hennar málasviði. Þarna er heilbr.- og trn. að fara inn á málasvið annarrar nefndar og breyta lögum sem eru á ábyrgð annars ráðherra. Ég tel að skynsamlegast væri í stöðunni, og vil fara fram á það, frú forseti, að þessu máli verði frestað hér á fundinum og við deilum ekki meira um það í bili og reyni að finna lausn á þessum ágalla. Það getur vel verið að það sé réttmætt og nauðsynlegt að breyta lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga í þá veru sem hv. heilbr.- og trn. lagði til, en ég held að við ættum að vanda þessi vinnubrögð og ég vil fara fram á það að forseti fresti þessari afgreiðslu núna þannig að mönnum gefist ráðrúm til þess að leita sátta í málinu.