Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:49:24 (6136)


[13:49]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að leiðrétta hv. síðasta ræðumann. Ég hef nefnt það hér ítrekað og það eru dæmi þess að bandormum hafi verið breytt við 3. umr. með því að taka inn í þá nýja kafla í lögum, breytingar á lögum sem ekki voru í frv. áður og ekki heyrðu undir efh.- og viðskn. Þetta er algjör misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni og hann hefur greinilega ekkert kynnt sér þetta mál.
    Það er hægt að nefna hér dæmi um það að til að mynda hafi verið teknar inn breytingar á almannatryggingalögum í ríkisfjármálabandorm við 3. umr. Ekki eru almannatryggingalögin á verksviði efh.- og viðskn. Þetta eru vinnubrögð sem hv. síðasti ræðumaður hefur sjálfur tekið þátt í. Það er ekki kannski aðalatriðið. Aðalatriðið er það að þetta mál er komið á lokastig í þinginu. Það er ekkert að vanbúnaði að ljúka því. Ef menn vilja fresta því, þá er það auðvitað á valdi forseta að gera það. En ef þessi atkvæðagreiðsla mun fara hér fram, ef forseti ákveður að láta hana fara fram, þá vil ég vegna ummæla hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar láta það koma hér fram að með ræðu sinni hefur hann sannfært mig um að það sé rétt að greiða atkvæði gegn tillögunni um að vísa þessu máli aftur til nefndar.