Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:51:33 (6139)


[13:51]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé góð tillaga hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. og styð hana. En vegna orða hv. 8. þm. Reykv., þingflokksformanns Sjálfstfl., vil ég minna á að þegar unnið var að því að koma hinu háa Alþingi í eina málstofu, þá var á það lögð áhersla að þar sem umræður yrðu þar með helmingi færri en áður var, þá yrði sérstaklega vandað til lagasetningar og störf væru gerð markvissari. Það er því fráleitt að hv. 8. þm. Reykv. beri saman meðferð mála meðan málstofur voru tvær og mál gengu milli deilda þannig að það er á engan hátt sambærilegt. Þetta skipulag sem við búum nú við er það nýtt að við verðum að vera á varðbergi að hér upphefjist ekki vinnubrögð af því tagi sem hér eru í frammi höfð (Gripið fram í.) og það væri sorglegt nú í lok þingsins. Þar sem ég held að stjórnarliðar eigi það töluvert undir stjórnarandstöðu að hér náist samkomulag um þinglok, þá getur það ekki verið mikið mál að verða við þeim óskum að leitað verði leiða til að sætta þingið við þessa málsmeðferð og það er auðvitað ekkert að vanbúnaði, hæstv. forseti, að þessari atkvæðagreiðslu verði frestað og þingflokksformenn setjist niður og leiti sátta. Ég hygg að það væru skynsamleg vinnubrögð nú þegar þinglok fara í hönd.