Háskólinn á Akureyri

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:04:28 (6147)


[14:04]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Frv. það um breyting á lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, sem hér er til 1. umr. er einfalt í sniðum og þarfnast ekki ítarlegra skýringa. Tildrög frv. eru þau að fyrr í vetur sendi háskólanefnd Háskólans á Akureyri mér drög að nýrri reglugerð fyrir skólann. Í þessum reglugerðardrögum er m.a. að finna ítarleg ákvæði um framgang kennara í hærri stöður hliðstætt því sem tíðkast við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Að athuguðu máli í ráðuneytinu varð sú niðurstaðan að samkvæmt gildandi lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, væri tæpast grundvöllur til að setja slík ákvæði í reglugerð. Frv. er lagt fram að höfðu samráði við Háskólann á Akureyri til að tryggja lagagrundvöll framgangskerfis við skólann. Hér þykir eðlilegt að samræmis sé gætt í þessum efnum og að kennurum við Háskólann á Akureyri séu tryggð sömu réttindi og starfsbræðrum þeirra við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
    1. gr. frv. á sér hliðstæðu í 6. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og síðustu mgr. 32. gr. laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands. Veitt er heimild til framgangs kennara í hærri stöður samkvæmt ákveðnum skilyrðum sem sett verða í reglugerð með hliðsjón af ákvæðum 19. gr. reglugerðar nr. 98/1993, um Háskóla Íslands, og 46. gr. reglugerðar nr. 496/1990, um Kennaraháskóla Íslands. M.a. er gert ráð fyrir ákvæðum um að skipa skuli dómnefndir til að fjalla um framgang kennara með sama hætti og þegar stöður eru auglýstar og að háskólanefnd skuli setja reglur um framgangskerfið og leggja þær fyrir menntmrn. til staðfestingar.
    Eins og ég nefndi í upphafi er hér um einfalt frv. að ræða og sýnist það vera réttlætismál að það nái fram að ganga. Ég vænti þess að frv. fái skjóta og góða afgreiðslu hér í þinginu.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni 1. umr.